Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

6

Sigurbjörn Bárðarson útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ

04.01.2025

 

Í kvöld var Sigurbjörn Bárðarson útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ. Var þetta tuttugasti og sjötti einstaklingurinn sem útnefndur er í Heiðurshöll ÍSÍ. Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti útnefninguna einróma á fundi sínum í byrjun desember. Afhending viðurkenningarinnar fór fram í kvöld í beinni útsendingu RÚV þegar úrslit úr kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2024 voru tilkynnt.

Sigurbjörn á einn lengsta keppnisferil í fremstu röð sem nokkur íþróttamaður hefur átt á Íslandi. Hann hefur keppt í öllum greinum hestaíþrótta í 57 ár, er margfaldur Íslands- og heimsmethafi í skeiðgreinum, hefur 13 sinnum unnið til gullverðlauna á Heimsmeistaramótum, unnið yfir 120 Íslandsmeistaratitla og sigrað flestar greinar Landsmóta, nú síðast árið 2022 þá 70 ára gamall.
Sigurbjörn var kjörinn Íþróttamaður ársins árið 1993 og hefur fimm sinnum verið tilnefndur í hóp 10 efstu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna.

Sigurbjörn hefur verið í fararbroddi þegar kemur að ímynd sinnar íþróttagreinar, þróun reiðmennsku og kynningarstarfs íslandshestamennskunnar um allan heim. Hann hefur verið virkur í félags- og menntamálum hestamanna og setið í sem formaður menntanefndar  við  Háskólans á Hólum í áraraðir. Frá árinu 2018 hefur hann gegnt starfi landsliðsþjálfara A-landsliðs LH og staðið þar fyrir umbyltingu í öllu afreksstarfi sambandsins og náð eftirtektarverðum árangri.

Sigurbjörn hefur frá upphafi ferils sýns verið fyrirmynd annars hestafólks þegar kemur að reglusemi, ástundun, elju og snyrtimennsku og átt þannig stóran þátt í bættri ásýnd og fagmennsku innan íþróttarinnar.
Hann hefur hlotið Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu og Heiðursverðlaun Landssambands hestamannafélaga fyrir störf sín í þágu hestaíþrótta á Íslandi, er heiðursfélagi hestamannafélagsins Fáks og Félags Tamningamanna, svo eitthvað sé nefnt.

Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Sigurbjörn Bárðarson í Heiðurshöll ÍSÍ.
Myndir Arnaldur Halldórsson.

Myndir með frétt