Íþróttamaður ársins 2024 er Glódís Perla Viggósdóttir
Í kvöld voru úrslit í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna (SÍ) um Íþróttamann ársins 2024 tilkynnt, í beinni útsendingu RÚV frá sameiginlegu hófi ÍSÍ og SÍ í Silfurbergi í Hörpu. Að þessu sinni var það Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrnukona hjá Bayern München í Þýskalandi og íslenska landsliðsins, sem hreppti heiðursnafnbótina.
Glódís Perla varð þýskur meistari með FC Bayern í fyrra og er fyrirliði íslenska landsliðsins sem tryggði sér sæti á EM 2025 með sigri á Þýskalandi á Laugardalsvelli. Þá varð hún í 22. sæti í kjörinu til Gullboltans, Ballon d'Or, efst miðvarða. Þetta er mikil viðurkenning fyrir Glódísi enda er um að ræða ein virtustu einstaklingsverðlaun heims í fótbolta. Glódís Perla er fyrsti Íslendingurinn sem fær tilnefningu til Gullboltans. Þá var hún eini miðvörðurinn á lista Guardian yfir 50 bestu leikmenn heims.
Þau þrjú efstu í kjörinu voru Glódís Perla Viggósdóttir, Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingakona, og Sóley Margrét Jónsdóttir, kraftlyftingakona.
Þjálfari ársins var valinn Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennaliðs Noregs í handknattleik, og Lið ársins var valið karlalið Vals í handknattleik. Alexander Örn Júlíusson, Agnar Smári Jónsson, Vignir Stefánsson og Óskar Bjarni Óskarsson tóku við verðlaununum fyrir hönd Vals. Því miður hafði Þórir ekki tök á því að vera viðstaddur en systur hans tóku við viðurkenningunni.
ÍSÍ óskar Glódísi Perlu, Þóri Hergeirssyni, leikmönnum og teymi karlaliðs Vals í handknattleik, sem og íþróttafólki ársins 2024 hjartanlega til hamingju með titlana og viðurkenningarnar. Því miður hafði Þórir ekki tök á því að vera viðstaddur en systur hans tóku við viðurkenningunni.
Fyrr um kvöldið voru veitt verðlaun til íþróttafólks ársins úr röðum sérsambandanna. Hér má finna alla sem kjörnir voru íþróttamenn og íþróttakonur ársins.
Myndir/Arnaldur Halldórsson.