Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23

BH bætist í hóp Fyrirmyndarfélaga ÍSÍ

23.12.2024

 

Badmintonfélag Hafnarfjarðar (BH) fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ fimmtudaginn 19. desember síðastliðinn á tvíliðaleiksmóti félagsins í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði. Alls voru þrjár viðurkenningar veittar, til aðalstjórnar félagsins og beggja deilda þess, borðtennisdeildar og badmintondeildar en síðarnefnda deildin fékk áður viðurkenningu árið 2009 á 50 ára afmæli félagsins. Það var Hörður Þorsteinsson gjaldkeri framkvæmdastjórnar ÍSÍ sem afhenti viðurkenningarnar, þeim Erlu Björg Hafsteinsdóttur formanni félagsins sem tók við viðurkenningu aðalstjórnar, Önnu Lilju Sigurðardóttur framkvæmdastjóra BH sem tók við viðurkenningu fyrir badmintondeild og Jóhannesi Bjarka Urbancic Tómassyni sem tók við viðurkenningu borðtennisdeildar. Á fyrstu myndinni eru Anna Lilja, Jóhannes Bjarki og Erla Björg með viðurkenningarnar ásamt Herði frá ÍSÍ, Hrafnkeli frá ÍBH og hópi iðkenda í bæði badminton og borðtennis. Á annarri myndinni eru Hrafnkell, Anna Lilja, Erla Björg, Jóhannes og Hörður. Og á síðustu myndinni eru Jóhannes Bjarki, formaður borðtennisdeildar BH, Ingimar Ingimarsson þjálfari og fjórir ungir iðkendur í borðtennissal félagsins að athöfn lokinni.

„ Við erum ánægð og stolt að vera búin að fá Fyrirmyndarfélagsviðurkenninguna aftur. Skýrar stefnur og verklag hjálpa öllum sem að starfinu koma og ýta undir fagleg vinnubrögð sem við viljum svo sannarlega vera þekkt fyrir. Gátlisti Fyrirmyndarfélagsins er frábær fyrir félög sem vilja yfirfara sín mál og tryggja að allt sé í réttum skorðum. Við erum sannfærð um að vinnan sem við lögðum í verkefnið muni hjálpa okkar góða félagi að vaxa og blómstra enn frekar” sagði Erla Björg Hafsteinsdóttir formaður BH af þessu tilefni.

Myndir með frétt