Allir með vagninn fer á ferðina eftir áramót
Allir með er verkefni sem gengur út á að fjölga tækifærum fyrir fötluð börn í íþróttum en það eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) sem standa að þessu verkefni í sameiningu.
Verkefnið er margþætt því fatlanir geta verið margskonar, bæði líkamlegar fatlanir og andlegar fatlanir. Hingað til hefur lítið sem ekkert verið í boði fyrir börn sem eru í hjólastól. Það geta verið margar ástæður fyrir því en stærsta hindrunin er hvað íþróttahjólastólar eru dýrir. Til þess að geta boðið upp á æfingar í boltagreinum eins og hjólastólakörfubolta og hjólastólahandbolta þurfa að vera til 10 -12 stólar á hverjum stað en kostnaðurinn við slíka stóla er mikill.
Til þess að leysa þessa áskorun hefur Allir með verkefnið fjárfest í tíu íþróttahjólastólum en hugmyndin er að hægt verði að keyra þá á milli íþróttahúsa í yfirbyggðum vagni. Vagninn er í smíðum hjá Marel sem stutt hefur myndarlega við verkefnið. Starfsfólk Marel bæði hannaði vagninn og annast smíðina en í vagninn komast tólf sérstakir hjólastóla án þess að það þurfi að taka þá í sundur.
Það var Gunnar Karl Thoroddsen, nemi í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands, sem hlaut fyrstu verðlaun og mun hönnun hans prýða Allir með-vagninn. Hann hlýtur 150.000 í verðlaun. Hér má sjá frétt um hönnunina og aðra vinningshafa í keppninni.
„Vagninn með þessari hönnun mun fara á fleygiferð um landið eftir áramót og vekja mikla athygli. Hann á eftir að gleðja börnin sem munu nota hjólastólana en sýna á sama tíma að við þurfum að gera betur í þessum málaflokki,“ segir Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri Allir með.
Á Íslandi eru rúmlega þrjú þúsund fötluð börn sautján ára og yngri. Einungis fjögur prósent þeirra stunda skipulagt íþróttastarf. Þessu verðum við sem þjóð að breyta og það ætlum við að gera með Allir með verkefninu.
Á myndinni, sem tekin var við verðlaunaafhendinguna í byrjun desember, má sjá til vinstri Hrefnu Sigurðardóttir, lektor við hönnunardeild Listaháskóla Íslands, Frosta Gnarr, kynningarstjóra Listaháskóla Íslands, Kolfinnu Frigg Sigurðardóttur, sem hlaut annað sætið í hönnunarkeppninni, Gunnar Karl Thoroddsen, sem hlaut fyrstu verðlaun og John Berniel Gavilo Quirona, sem hlaut þriðja sætið og Valdimar Smári Gunnarsson, verkefnastjóra Allir með.