Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

14

Verðlaunaafhending á Bessastöðum

09.12.2024

 

Forvarnardagurinn 2024 fór fram þann 2. október síðastliðinn, en í tengslum við daginn gafst nemendum í 9. bekk í grunnskólum landsins og á fyrsta ári í framhaldsskóla tækifæri til að taka þátt í verðlaunaleik. Leikurinn fól í sér að skila inn kynningarefni sem tengdist þema dagsins, en í ár var það leikir sem stuðla að samveru fjölskyldu og vina.

Verðlaunaafhending í leiknum fór fram á Bessastöðum á laugardaginn í boði forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, en þangað mættu auk vinningshafa og forráðarmanna, allir þeir aðilar sem standa að deginum. 

Í flokki grunnskólanema hlutu þær Valdís Björk Samúelsdóttir, Kristný Halla Bragadóttir, Agla Dís Adolfsdóttir, Emelía Ýr Gísladóttir og Emma Mist Andradóttir sem allar eru nemendur í Grunnskólanum í Borgarnesi verðlaunin, en þær bjuggu til myndband sem sýndu nokkra leiki sem vinir og fjölskylda geta tekið þátt í og kosta ekkert. 

Í flokki framhaldsskólanema á fyrsta ári, komu verðlaunin í hlut Elísabetar Ingvarsdóttur sem stundar nám í Framhaldsskólanum á Húsavík, en hún bjó til glærukynningu með hugmyndum að fjölda leikja og samverustunda fyrir vini og fjölskyldu. Elísabet fór yfir hugmyndir sínar og fólst það sérlega vel úr hendi.

Að Forvarnardeginum standa: Embætti landlæknis sem fer með stjórn verkefnisins, embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Skátarnir, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Samfés, Heimili og skóli og Samstarf félagasamtaka í forvörnum. Hægt er að kynna sér efni Forvarnardagsins hér.

Myndir með fréttinni tók Jón Aðalsteinn Jónsson.

Myndir með frétt