Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
4

Ungmennafélagið Ás Fyrirmyndarfélag ÍSÍ

29.11.2024

 

Ungmennafélagið Ás fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á Kirkjubæjarklaustri fimmtudaginn 28. nóvember síðastliðinn. Það var Viðar Halldórsson félagsfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands (HÍ) sem afhenti viðurkenninguna fyrir hönd Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og formaður félagsins, Fanney Ólöf Lárusdóttir, sem tók við viðurkenningunni. Ungmennafélagið Ás varð til við sameiningu Ungmennafélaganna Ármanns og Skafta í Skaftárhreppi.

„Við erum mjög stolt af því að hljóta þessa viðurkenningu sem gerir allt okkar starf faglegra og betra.  Nú þegar handbókin er tilbúin er stóra verkefnið að fylgja því, sem þar kemur fram, vel eftir og gæta þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru og við viljum standast. Nú er hægt að nálgast allar helstu stefnur, áætlanir og reglur félagsins á einum stað sem nýtast mun öllum sem koma að félaginu í dag sem og þeim sem koma að starfi þess í framtíðinni“ sagði Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og jafnframt starfsmaður félagsins af þessu tilefni.

Á myndunum má sjá frá afhendingunni, þau Fanney Ólöf og Sigurður Eyjólfur á fyrstu tveimur myndunum og Fanney Ólöf og Viðar Halldórsson, á síðustu myndinni.

Hvað er Fyrirmyndarfélag ÍSÍ?

Fyrirmyndarfélag ÍSÍ er gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snýr að íþróttastarfi. Íþróttafélög og deildir innan félaga geta sótt um viðurkenningu til ÍSÍ að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þegar viðurkenning hefur verið veitt gildir hún í fjögur ár. 

Viðurkenningunni fylgja ýmsir kostir. Handhafar hennar hafa samþykkt stefnur og viðbragðsáætlanir í flestum þeim málum er snúa að íþróttastarfi. Fjölbreytt markmið með starfinu liggja fyrir og það eitt og sér eykur líkur á því að allir sem koma að starfinu með einum eða öðrum hætti rói í sömu átt, félaginu til heilla og framfara. Siðareglur liggja fyrir, persónuverndarstefna er klár auk stefna í fræðslu- og forvarnarmálum, jafnréttismálum, umhverfismálum og félagsmálum svo eitthvað sé nefnt. Benda má á að sveitarfélög gera í auknum mæli kröfur til íþróttafélaga um að hafa þessa viðurkenningu frá ÍSÍ.   


ÍSÍ hvetur íþróttafélög, stór sem smá, til að sækja um viðurkenninguna og stuðla þannig að faglegra starfi í hreyfingunni. 

Hér má finna nánari upplýsingar um Fyrirmyndarfélög ÍSÍ. Umsjón með verkefninu hefur Viðar Sigurjónsson (vidar@isi.is og 514-4000), sérfræðingur á Stjórnsýslusviði ÍSÍ. 

Myndir með frétt