Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Málþingið Hreyfing 60+ vel heppnað!

21.11.2024

 

Þann 19. nóvember síðastliðinn fór fram málþingið Hreyfing 60+ sem haldið var í Borgarbyggð. Rúmlega 40 manns mættu í sal og tæplega 200 aðilar fylgdust með á streymi þegar mest var. Málþingið var á vegum samráðshóps sem stofnaður var snemma árs 2024, í því skyni að hrinda í framkvæmd hluta aðgerðaráætlunar verkefnisins Gott að eldast, sem heyrir undir Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Heilbrigðisráðuneytið.

Margir áhugaverðir fyrirlestrar voru á málþinginu auk vinnustofu og umræðutíma sem gaf þátttakendum tækifæri til að viðra hugmyndir og kynnast. Ávinningur málþingsins var að fá saman fólkið sem vinnur að heilsueflingu 60+ víðs vegar um land og búa til vettvang þar sem hægt er að bera saman bækur, fræðast og fá hugmyndir. Í vinnustofu málþingsins var meðal annars rætt og unnið með spurninguna „Hvernig förum við að því að virkja fólk til hreyfingar?“ og „Hvernig náum við til minnihlutahópa í samfélaginu, til að mynda fólks af erlendum uppruna, þeirra sem eru fatlaðir og/eða félagslega einangraðir?" Niðurstöður úr vinnustofunni eru í úrvinnslu og verða þær birtar síðar inn á vef Bjarts lífsstíls

Mikil ánægja ríkti meðal þátttakenda og er mikilvægt að viðhalda málþingum sem þessum í framtíðinni. 

Verkefnastjórar Bjarts lífsstíls eru hluti af þessum samráðshópi en Bjartur lífsstíll er verkefni á vegum ÍSÍ (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands), Landsambands eldri borgara (LEB) og Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og vinnur að heilsueflingu eldra fólks. Verkefnastjórarnir eru þær Margrét Regína Grétarsdóttir, starfsmaður ÍSÍ og Ásgerður Guðmundsdóttir, starfsmaður LEB. Aðrir í samráðshópnum eru Birna Sigurðardóttir sérfræðingur hjá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis (heilsueflandi samfélag) og Arna Steinarsdóttir, fagstjóri sjúkraþjálfunarþjónustu. Markmið samráðshópsins er að koma öllum upplýsingum um framboð heilsueflandi aðgerða á landsvísu á aðgengilegan stað (www.island.is) þar sem bilið er brúað á milli þeirra sem leita eftir þjónustunni og þeirra sem standa fyrir hreyfiframboðum. 

Upptöku af málþinginu má finna hér.

Myndirnar eru frá málþinginu. Fyrsta og síðasta myndin sýna verkefnastjóra Bjarts lífsstíls, Ásgerði Guðmundsdóttur og Margréti Regínu Grétarsdóttur. Önnur myndin sýnir samráðshópinn sem stóð að málþinginu, frá vinstri; Margrét Regína, Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, Arna Steinarsdóttir og Ásgerður Guðmundsdóttir, en Birnu Sigurðardóttur vantar. Á þriðju myndinni má sjá frá vinstri Svavar Knút, Drífu Baldursdóttur, Helgu Ösp Jóhannsdóttur, Sigríði Arndísi Jóhannsdóttur, Hildi Guðnýju Ásgeirsdóttur, Örnu Steinarsdóttur og Guðmundu Ólafsdóttur en á myndina vantar Emilíu Halldórsdóttur. Myndir/Margrét Regína.

 

Myndir með frétt