Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Fjármálaráðstefna ÍSÍ var vel sótt

15.11.2024

 

Fjármálaráðstefna ÍSÍ var haldin í gær og var vel sótt. Um 80 þátttakendur mættu á viðburðinn, sem haldinn var á Hilton Reykjavík hotel Nordica og þegar mest var fylgdust um 150 aðilar með á streymi, en sjá má upptöku frá ráðstefnunni hér.

Þórey Edda Elísdóttir, fyrsti varaforseti ÍSÍ, var fundarstjóri og stjórnaði fundinum af festu. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hélt fyrsta erindið en hann fór yfir fjárframlög stjórnvalda til íþróttahreyfingarinnar. Á ráðstefnunni upplýsti hann að í fjárlögum, sem til umræðu eru á Alþingi þessa dagana, og verða vonandi samþykkt á næstu dögum, er lagt til að framlag til afreksíþrótta verði aukið um 650 milljónir króna, til viðbótar við það framlag sem inn kemur til ÍSÍ á hverju ári. 

Kári Steinn Reynisson, rekstrarstjóri ÍSÍ, fór yfir leiðbeiningar um skattskyldu í íþróttastarfseminni og hvernig staðan á þeim málum er en leiðbeiningarnar voru nýlega endurskoðaðar. Var þar m.a. lögð áhersla á að aðilar í íþróttahreyfingunni kynntu sér tækifærin sem felast í skráningu á almannaheillaskrá skattsins.

Eftir kaffihlé fór Jónas Gestur Jónasson, stjórnarformaður og meðeigandi hjá Deloitte og Olga Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Gerplu og annar varaforseti ÍSÍ, yfir rekstrarumhverfi íþróttahreyfingarinnar. Jónas benti t.d. á ýmsar leiðir sem hægt er að fara við rekstur íþróttafélaga svo hlutirnir séu gerðir rétt. Olga fór yfir þær áskoranir í rekstrinum sem hún hefur glímt við sem framkvæmdastjóri íþróttafélagsins Gerplu, sem er eitt stærsta íþróttafélagið á landinu. 

Að lokum töluðu Hörður Þorsteinsson, gjaldkeri framkvæmdastjórnar ÍSÍ og Pétur Hrafn Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Íslenskrar Getspár, um happdrætti og veðmálastarfsemi í tengslum við íþróttahreyfinguna, hvað sé leyfilegt og hvað skuli varast.

ÍSÍ mun taka umræðu fundarins áfram inn á Formannafund ÍSÍ, en hann verður haldinn 22. nóvember nk. ásamt samtali við stjórnvöld um aðgerðir til þess að styrkja rekstrarumhverfi íþróttahreyfingarinnar enn frekar.

ÍSÍ þakkar öllum sem mættu fyrir góðan fund!

 

Myndir með frétt