Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Nikolay Mateev á HM 50 ára og eldri í skylmingum

25.10.2024

 

Dagana 11. til 18. október, var Heimsmeistaramótið í skylmingum fyrir 50 ára og eldri (e.veteran) haldið í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Um 855 keppendur frá 58 löndum tóku þátt og var keppt í þremur aldursflokkum hjá báðum kynjum, 50-59 ára, 60-69 ára og 70 ára og eldri. Mótið fór afar vel fram, var vel skipulagt og voru keppnisstaður og -aðstæður eins og best var á kosið. 

Nikolay Mateev, formaður Skylmingasambands Íslands, sem nýverið var endurkjörinn í stjórn Evrópska skylmingasambandsins (EFC), stóð þar í ströngu í stóru hlutverki en hann var mótastjóri Heimsmeistaramótsins að þessu sinni. Nikolay er einnig formaður mótanefndar hjá Evrópska skylmingasambandinu ásamt því að sitja í nefnd Alþjóðaskylmingasambandsins (FIE) um kynningar-, samskipta- og markaðsmál, en það hann hefur gert allt frá árinu 2008 og er núverandi formaður þeirrar nefndar.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Nikolay Mateev (fjórða frá hægri í neðri röð) ásamt H.H. Engr. Sheikh Salem bin Sultan bin Saqr Al Qasimi, forseta Skylmingasambands Asíu (hægra megin við Nikolay) og Abdelmoneim Elhamy El Husseiny, fyrsta varaforseta Alþjóðaskylmingasambandsins (fjórða frá vinstri í neðri röð), auk annarra er komu að mótinu sem og hluta af sigurvegurum mótsins.