Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Vésteinn á sýningu um fyrsta Ólympíufara Sunnlendinga

24.10.2024


Þriðjudaginn 1. október opnaði sýning á bókasafni Árborgar, sem Minjanefnd Umf. Selfoss stendur fyrir, með verðlaunagripum Ólympíufarans Sigfúsar Sigurðssonar. Sigfús var kúluvarpari og fyrsti sunnlenski íþróttamaðurinn sem fór á Ólympíuleika fyrir Íslands hönd. Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, heimsótti sýninguna í gær, miðvikudaginn 23. október, en Vésteinn hóf einmitt glæstan íþróttaferil sinn á Selfossi. Vésteinn deildi upplifun sinni af Ólympíuleikum í gegnum árin en Vésteinn hefur á rúmlega 40 ára tímabili farið á ellefu Ólympíuleika, sem keppandi fjórum sinnum, þjálfari og fararstjóri sex sinnum og nú síðast í júlí á þessu ári, sem aðalfararstjóri ÍSÍ á leikunum í París.

Vésteinn fór yfir ferilinn sinn, allt frá því þegar hann var ungur þátttakandi í íþróttastarfinu á Selfossi, til þess tíma er hann komst í úrslit í kringlukasti á Ólympíuleikum en hann varð svo í framhaldinu einn af bestu kastþjálfurum í fremstu röð í heiminum. Hann náði þeim einstaka árangri að þjálfa tvo Ólympíumeistara í kringlukasti og fleiri afreksmenn og afrekskonur, sem unnu til verðlauna á mörgum stórmótum. Vésteinn kynnti einnig þau verkefni sem hann vinnur að fyrir ÍSÍ þessa dagana, en hann hóf störf sem afreksstjóri ÍSÍ á vormánuðum 2023 eftir að hann hætti þjálfun. 

Sigfús Sigurðsson keppti í kúluvarpi á Ólympíuleikunum í London 1948. Hann komst í úrslit og lenti í 12. sæti þegar hann varpaði kúlunni 13,66 metra í úrslitakeppninni. Hann var einn af frumkvöðlum íþróttauppbyggingar á Selfossi, var formaður Ungmennafélags Selfoss um árabil og seinna gerður þar að heiðursfélaga.

Á myndinni má sjá til vinstri Kristin Bárðarson, nefndarmann í minjanefnd Umf. Selfoss, Véstein fyrir miðju og Guðmund Kr. Jónsson, heiðursformann HSK að loknu erindi Vésteins. Mynd/Engilbert Olgeirsson.