Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

HSH verður Fyrirmyndarhérað ÍSÍ

16.10.2024

 

Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ á formannafundi HSH í grunnskólanum í Stykkishólmi þriðjudaginn 15. október síðastliðinn. Það var Hörður Þorsteinsson gjaldkeri framkvæmdastjórnar ÍSÍ sem afhenti formanni HSH, Hjörleifi Kristni Hjörleifssyni viðurkenninguna. HSH hóf þessa vegferð eftir kynningu á ársþingi sambandsins síðastliðið vor og hefur nú sett saman handbók sem inniheldur alla þætti gátlista Fyrirmyndarhéraða. Stefnt er að því að öll aðildarfélög HSH verði Fyrirmyndarfélög ÍSÍ í kjölfarið og feti þ.m. í fótspor íþróttahéraðsins. Á myndinni eru frá vinstri, Hjörleifur formaður HSH og Hörður gjaldkeri framkvæmdastjórnar ÍSÍ.

Að fá þessa viðurkenningu mun hjálpa HSH að vera sýnilegt og halda áfram á þeirri vegferð sem HSH hefur verið að vinna að undanfarin misseri.  Að vinna undir góðu skipuriti og skilgreiningu á hlutverki stjórnar og starfsmanna ásamt skýrri stefnu í hinum ýmsu málaflokkum, gerir alla vinnu mun auðveldari“ sagði Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson formaður HSH af þessu tilefni.

 

Vilt þú að þitt hérað verði Fyrirmyndarhérað ÍSÍ?
Fyrirmyndarhérað ÍSÍ er gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snýr að íþróttastarfi. Íþróttahéruð geta sótt um viðurkenninguna til ÍSÍ að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem finna má á gátlista Fyrirmyndarhéraða.

Viðurkenningin gildir í fjögur ár. Viðurkenningunni fylgja ýmsir kostir. Nefna má þætti eins og skýrara skipurit, skilgreingar á hlutverki stjórnar og starfsmanna, skýrar stefnur í málaflokkum, eins og fræðslu- og forvarnarmálum, jafnréttismálum, umhverfismálum og félagsmálum auk persónuverndarstefnu og gerð siðareglna. 

ÍSÍ hvetur íþróttahéruðin til að sækja um þessa viðurkenningu og stuðla þannig að faglegra starfi í hreyfingunni.

Umsjón með verkefninu hefur Viðar Sigurjónsson (vidar@isi.is og 514-4000), sérfræðingur á Stjórnsýslusviði ÍSÍ. 

Hér má finna nánari upplýsingar um Fyrirmyndarhéruð ÍSÍ.

Hér má einnig finna nánari upplýsingar um Fyrirmyndarfélög ÍSÍ.