Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Anna Soffía á þjálfaranámskeiði í boði Ólympíu samhjálparinnar

07.10.2024

 

Síðastliðið sumar bauð Alþjóða tennissambandið (International Tennis Federations, ITF) upp á þjálfaranámskeið fyrir þjálfun á afeksstigi, ætlað þeim þjálfurum sem vinna með tennisspilurum sem eru lengra komnir. Um var að ræða annars stigs þjálfaranámskeið sem stóð yfir í fimm vikur og voru fjórar vikur í fjarnámi og ein vika í Valensíu á Spáni. Anna Soffía Grönhólm, tenniskona og tennisþjálfari, var ein af sjö þátttakendum, en þjálfararnir komu frá mismunandi löndum og heimshlutum, þ.á.m. Möltu, Sri Lanka, Katar, Óman, Namibíu og Jórdaníu. Anna Soffía, sem var handhafi námsstyrks frá Ólympíu samhjálpinni (Olympic Solidarity), var valin af Tennissambandi Íslands (TSÍ) og með aðstoð ÍSÍ til þess að vera fulltrúi Íslands á námskeiðinu.

Anna Soffía var mjög ánægð með þjálfaranámskeiðið og sagðist hafa lært margt nýtt og taka marga hluti með sér í sína þjálfun. Hún hafði þetta að segja um námskeiðið:
„Á námskeiðinu fengum við innsýn frá sérfræðingum ITF um tækni, taktík, hreyfingafræði, forvarnir gegn meiðslum, íþróttasálfræði og greiningu á leikjum. Við öðluðumst aukna fræðilega þekkingu og fengum tækifæri til að prófa nýjar aðferðir á vellinum, sem gaf okkur ný tæki til að bæta okkar eigin þjálfunaraðferðir. Þetta námskeið hefur bætt þjálfunarfærni mína til muna. Reynslan og leiðsögnin munu hjálpa mér að vinna betur með lengra komnum og ungum afrekstennisspilurum. Einnig var ómetanlegt að læra af öðrum þjálfurum frá ýmsum löndum. Að deila ólíkum þjálfunaraðferðum og reynslu víkkaði sjóndeildarhringinn minn og skapaði samvinnuumhverfi þar sem við öll fengum nýjar hugmyndir um þjálfun afreksspilara.“

Myndir/Anna Soffía

Myndir með frétt