Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Minning - Sigmundur Þórisson

04.10.2024

 

Kveðja frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands

Látinn er Sigmundur Þórisson, fyrrverandi meðlimur framkvæmdastjórnar ÍSÍ.  Sigmundur var kjörinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ árið 1997 og sat því í fyrstu stjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), sameinaðs sambands Íþróttasambands Íslands og Ólympíunefndar Íslands. Hann átti sæti í framkvæmdastjórn ÍSÍ í níu ár eða til ársins 2006.

Fyrstu árin eftir sameiningu voru mikil mótunarár og fyrir framkvæmdastjórn ÍSÍ lágu mörg stór og krefjandi verkefni. Sigmundur bjó yfir mikilli þekkingu úr íþróttahreyfingunni og gat miðlað af reynslu sinni sem leiðtogi í íþróttahreyfingunni  sem formaður Knattspyrnufélags Akureyrar (KA) í tæplega áratug. Undir stjórn hans efldist starfsemi KA mikið og hjá félaginu varð mikil uppbygging. Á meðan Sigmundur átti sæti í framkvæmdastjórn ÍSÍ sinnti hann ýmsum hlutverkum í starfi ÍSÍ, sat í nefndum og ráðum og lagði sitt af mörkum á stefnumótandi tímabili í sögu ÍSÍ.

Sigmundur var sæmdur Gullmerki ÍSÍ árið 1996 og Heiðurskrossi ÍSÍ árið 2015 fyrir frábært starf í þágu íþrótta á Íslandi.

Að leiðarlokum kveðjum við góðan félaga með hlýju og þakklæti fyrir hans góða framlag til íþróttahreyfingarinnar.

Fjölskyldu Sigmundar og aðstandendum sendum við dýpstu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Sigmundar Þórissonar.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ

 

Mynd/KA