Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Íþróttafélagið Fylkir í hóp Fyrirmyndarfélaga ÍSÍ

30.09.2024

 


Íþróttafélagið Fylkir fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ í Fylkishöllinni föstudaginn 27. september síðastliðinn.  Viðurkenningar voru veittar til aðalstjórnar og sex deilda félagsins, þ.e. knattspyrnudeildar, handknattleiksdeildar, körfuknattleiksdeildar, blakdeildar, fimleikadeildar og karatedeildar.  Það var Hörður Þorsteinsson, gjaldkeri framkvæmdastjórnar ÍSÍ, sem afhenti viðurkenningarnar fyrir hönd ÍSÍ.  Íþróttafélagið Fylkir hefur unnið að þessari viðurkenningu undanfarin misseri og uppfyllir nú öll skilyrði Fyrirmyndarfélaga ÍSÍ.  Á hópmyndinni eru frá vinstri í aftari röð; Guðný Erla Jakobsdóttir, Hulda Björk Brynjarsdóttir, Ragnar Páll Bjarnason, Hörður Guðjónsson, Halldór Steinsson, Hörður Þorsteinsson, Guðrún Ósk Jakobsdóttir og Anton Ellertsson.  Fyrir framan þau eru svo ungir iðkendur í félaginu með fána Fyrirmyndarfélaga ÍSÍ.

„Það er skoðun okkar hjá Fylki að þessi viðurkenning skipti miklu máli fyrir okkar góða starf og hjálpi okkur í þeirri vegferð að gera gott félag enn betra.  Þetta mun líka hjálpa okkur að fá til liðs við okkur sterka stuðnings- og styrktaraðila sem eru nauðsynlegir þeirri starfsemi sem félagið býður upp á“ sagði Hörður Guðjónsson framkvæmdastjóri Fylkis af þessu tilefni.

 

Fyrirmyndarfélag ÍSÍ er gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snýr að íþróttastarfi. Íþróttafélög og deildir innan félaga geta sótt um viðurkenningu til ÍSÍ að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þegar viðurkenning hefur verið veitt gildir hún í fjögur ár. 

Viðurkenningunni fylgja ýmsir kostir. Handhafar hennar hafa samþykkt stefnur og viðbragðsáætlanir í flestum þeim málum er snúa að íþróttastarfi. Fjölbreytt markmið með starfinu liggja fyrir og það eitt og sér eykur líkur á því að allir sem koma að starfinu með einum eða öðrum hætti rói í sömu átt, félaginu til heilla og framfara. Siðareglur liggja fyrir, persónuverndarstefna er klár auk stefna í fræðslu- og forvarnarmálum, jafnréttismálum, umhverfismálum og félagsmálum svo eitthvað sé nefnt. Benda má á að sveitarfélög gera í auknum mæli kröfur til íþróttafélaga um að hafa þessa viðurkenningu frá ÍSÍ.   


ÍSÍ óskar Íþróttafélaginu Fylki innilega til hamingju með viðurkenninguna og um leið hvetur íþróttafélög, stór sem smá, til að sækja um viðurkenninguna og stuðla þannig að faglegra starfi í hreyfingunni.

Umsjón með verkefninu hefur Viðar Sigurjónsson (vidar@isi.is og 514-4000), sérfræðingur á Stjórnsýslusviði ÍSÍ. 

Upplýsingar um Fyrirmyndarfélög ÍSÍ

Upplýsingar um Fyrirmyndarhéruð ÍSÍ

Myndir með frétt