Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Viljayfirlýsing um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal

04.09.2024

 

Viljayfirlýsing um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal var undirrituð á mánudag af fulltrúum ríkisins, Reykjavíkurborgar, Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) og Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ). Um er að ræða fyrsta skref að uppbyggingu tveggja aðskilinna þjóðarleikvanga utanhúss í Laugardal.

Markmiðið er að byggja upp leikvanga í knattspyrnu og frjálsíþróttum með heildarumgjörð og búnaði sem uppfylla kröfur til alþjóðlegra keppnisviðburða.  Metnaður stjórnvalda stendur eðli málsins samkvæmt til þess að styðja við sívaxandi árangur og afrek Íslendinga í alþjóðlegum íþróttakeppnum, en mikilvægt er að leikvangar standist ríkar kröfur alþjóðlegra íþróttasambanda til alþjóðlegrar keppni.

Laugardalsvöllur verður byggður upp sem knattspyrnuvöllur eingöngu, þar sem mögulegt verður að leika stærstan hluta ársins. Fyrsti áfangi í uppbyggingu leikvangsins verður að skipta út núverandi grasi á vellinum fyrir blandað gras (svokallað hybrid-gras) og setja hitunarkerfi undir völlinn.

Með ákvörðun um notkun hybrid-grass á Laugardalsvelli er þar með útilokuð keppni í kastgreinum frjálsíþrótta. Því verður lagt kapp á að reisa nýjan þjóðarleikvang fyrir frjálsíþróttir og hrinda þeirri vinnu af stað eins fljótt og kostur er. Í því samhengi er m.a. horft til keppni á Smáþjóðameistaramóti á Íslandi 2028 sem og Smáþjóðaleika, fáum árum síðar. Vinnan muni byggja á tillögum starfshóps mennta- og menningarmálaráðaráðherra um þjóðarleikvang í frjálsíþróttum frá árinu 2021. Leikvanginum er þannig ætlað að vera opinn og aðgengilegur þjóðarleikvangur lýðheilsu sem og mikilvægur þáttur í afreksuppbyggingu með tengingu við Afreksmiðstöð Íslands.

Þá mun mennta- og barnamálaráðherra, sem fer með málefni íþrótta, leggja fram tillögur að aðstöðu fyrir æfingar og keppni í frjálsíþróttum á meðan á uppbyggingu nýs leikvangs stendur í samstarfi við Frjálsíþróttasamband Íslands.
Ríki og borg leggja hvor um sig allt að 250 m.kr. til framkvæmdar fyrsta áfanga. Þjóðarleikvangur ehf., sem er í eigu ríkisins, Reykjavíkurborgar og KSÍ, annast verkið.


Á stærri mynd, frá vinstri:  Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ, Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands og Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra

Á minni mynd, frá vinstri: Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ, Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, og Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands.

Myndir/Sigurjón Ragnar

Myndir með frétt