Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

ÍBR 80 ára og endurnýjar viðurkenningu sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ

03.09.2024

 

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) hélt upp á 80 ára afmæli bandalagsins og 40 ára afmæli Reykjavíkurmaraþonsins á laugardaginn síðasta, 31. ágúst í veislusal Knattspyrnusambands Íslands. Við það tilefni fékk ÍBR endurnýjun viðurkenningar íþróttahéraðsins sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ. Það voru þeir Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, og Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sem afhentu formanni ÍBR, Ingvari Sverrissyni viðurkenninguna.  ÍBR fékk viðurkenninguna fyrst fyrir fjórum árum og stefnir að því að halda henni um ókomna tíð. 

„Íþróttastarf er einn af meginþáttum í lífi langflestra íslenskra barna og hefur geysilega mikilvægt samfélagslegt gildi. Lýðheilsa, félagsstarf og góð heilsa er megin ávinningur starfsins en um leið búum við til afreksfólk sem bera hróður landsins um allan heim og verða fyrirmyndir fyrir komandi kynslóðir. Það er afar mikilvægt að rekstur íþróttastarfs byggi á traustum og faglegum grunni. Viðurkenningar ÍSÍ „Fyrirmyndarfélag“ og „Fyrirmyndarhérað“ eru frábær hvatning til að gera betur og betur í starfinu. Ég er afskaplega stoltur af félögunum í Íþróttabandalagi Reykjavíkur og starfsfólki bandalagsins og félaganna að hafa enn og aftur fengið viðurkenningu sem Fyrirmyndarhérað“, sagði Ingvar Sverrisson formaður af þessu tilefni.

ÍSÍ óskar ÍBR til hamingju með áfangana og viðurkenninguna sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ.

Myndir/Jón Aðalsteinn.

Myndir með frétt