Erna Sóley, kúluvarpari, kastaði lengst 17,39m
Í morgun, fimmtudaginn 8.ágúst, var komið að síðasta íslenska keppandanum í Ólympíuhópi ÍSÍ en þá voru tæpar tvær vikur frá því að Ólympíuleikarnir í París voru settir. Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarpari, sem keppti á sínum fyrstu Ólympíuleikum, stóð í ströngu ásamt 30 öðrum kúluvörpurum.
Keppnin hófst kl.08.25 á íslenskum tíma og fengu keppendur þrjár tilraunir til að kasta sig inn í úrslit, en lágmarkslengd var 19,15m eða 12 keppendur sem köstuðu lengst. Erna Sóley stóð sig afar vel og kastaði fyrst 17,34m, síðan 17,39m og loks 17,29m og endaði ellefta í sínum holli. Samanlagt endaði hún í 20. sæti af 31 keppenda sem er mjög vel gert. Það dugar henni þó ekki til úrslita að þessu sinni en þau fara fram föstudagskvöld, 9. ágúst, á Stade du France í París.
ÍSÍ óskar Ernu Sóleyju innilega til hamingju með árangurinn á Ólympíuleikunum í París 2024!