Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Anton Sveinn ekki kjörinn í Íþróttamannanefnd IOC

07.08.2024

 

Í dag kom í ljós hvaða íþróttamenn og -konur voru kosin í íþróttamannanefnd Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) en kosningin stóð yfir frá byrjun Ólympíuleika og lauk í dag, fimmtudaginn 8. ágúst. Í boði voru fjögur sæti og var skilyrði að íþróttafólkið kæmi allt úr mismunandi íþróttagreinum. 

Anton Sveinn McKee, sundmaður, bauð sig fram ásamt 28 íþróttafólki úr 15 íþróttagreinum. Hann bauð sig fram með fullum stuðningi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) en allir frambjóðendurnir þurftu yfirlýstan stuðning frá Ólympíu- og íþróttamannanefndum sinna landa.

Því miður náði Anton Sveinn ekki kjöri en þau fjögur sem voru valin eru eftirfarandi:
Allyson Felix (Bandaríkin, frjálsar), 
Kim Bui (Þýskaland, fimleikar), 
Jessica Fox (Ástralía, kanó) og
Marcus Daniell (Nýja Sjáland, tennis)

Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem íslenskur íþróttamaður býður sig fram til íþróttamannanefndar Alþjóðaólympíunefndarinnar, en Anton Sveinn hefur verið ötull við að taka þátt í vinnu og umræðum um ýmis málefni er snúa að íþróttafólki á Íslandi og þá sér í lagi baráttu afreksíþróttafólks fyrir bættum lýðréttindum. Hann hefur setið mörg málþing og ráðstefnur er tengjast afreksíþróttum á Íslandi og hefur átt sæti í Íþróttamannanefnd ÍSÍ síðan 2021. 

Anton Sveinn McKee hefur verið einn fremsti afreksíþróttamaður Íslands um árabil. Hann var meðal keppenda á fyrstu Ólympíuleikum ungmenna sem fóru fram í Singapore árið 2010 og fór á sína fyrstu Ólympíuleika í London árið 2012, þá 19 ára gamall. Ólympíuleikarnir í París voru fjórðu leikarnir hans en hann hefur nú formlega gefið það út að þetta séu hans seinustu Ólympíuleikar. Anton Sveinn hefur sett sextán Íslandsmet á sínum ferli auk þess sem hans stærstu afrek eru að ná 2. sæti á EM í 25 m laug í desember 2023 og 6. sæti á HM í 50 m laug árið 2022. 

Myndir með frétt