Fararstjórn ÍSÍ á fullu á Ólympíuleikunum
Það er mikið verk að skipuleggja þátttöku liðs á Ólympíuleikum og að mörgu að hyggja áður en haldið er af stað. Þeir starfsmenn ÍSÍ sem tilheyra Afrekssviði ÍSÍ bera hitann og þungan af skipulagningu leikanna og er þau sem mynda fararstjórn ÍSÍ í Ólympíuþorpinu á leikunum.
Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, er í hlutverki aðalfararstjóra á leikunum. Hans hlutverk er ekki bara að hugsa um íþróttafólkið og hvetja það fyrir keppni og æfingar heldur er hann aðaltengiliðurinn við fjölmiðla, skipuleggjendur á svæðinu og andlit hópsins út á við. Hann hefur farið á ellefu Ólympíuleika og þekkir leikana frá ýmsum hliðum.
Með honum í fararstjórn eru þær Brynja Guðjónsdóttir og Kristín Birna Ólafsdóttir, sérfræðingar á Afrekssviði. Þær hafa mikla reynslu af fararstjórn en eru á sínum fyrstu Ólympíuleikum. Brynja hefur haft umsjón með skráningum og upplýsingagjöf til skipuleggjenda leikanna og sérsambandanna á Íslandi í aðdraganda leikanna. Hún sá einnig um undirbúninginn í Ólympíuþorpinu áður en leikarnir hófust, en hún fór fyrst út og hófst handa við að koma íbúðunum og aðstöðu hópsins í rétt horf. Hún útvegar einnig keppendum og teymi þeirra allt það sem þeir þurfa til að gera vistina sem þægilegasta. Kristín Birna gengur einnig í öll störf, eins og Brynja og Vésteinn, en hún hefur einnig titilinn "welfare officer" sem má þýða á íslensku sem fulltrúi velferðar og verndunar fyrir íþróttafólkið. Hennar hlutverk er að sjá til þess að íþróttafólkið hafi fulltrúa sem getur tekið á ýmsum málum er varðar allt ofbeldi, áreitni eða aðra vanlíðan í íþróttum og hvernig bregðast skuli við þegar eitthvað kemur upp.
Það er aldrei dauð stund hjá fararstjórn ÍSÍ og þau eru vakin og sofin yfir íslensku þátttakendunum í Ólympíuþorpinu. Til að gefa smá hugmynd um hluti sem þarf að útvega má nefna að kaupa sjónvörp í Ólymíuþorpið og tengja þau, kaupa og setja saman húsgögn, panta æfingatíma fyrir keppendur og merkja vistarverur. Einnig skreyta þær og kaupa mat og búnað á herbergi. Þau fara sjaldnast út úr þorpinu og hefðu helst þurft að vera með meiraprófið í samsetningu húsgagna, akstri í útlöndum og verkfræðigráðu því verkin er mörg og ansi fjölbreytt. En svo eru þau auðvitað alltaf mætt til að fylgjast með öllum keppnum og geta lánað öxl og eyra ef eitthvað bjátar á hjá keppendum eða öðrum í teyminu! Þetta teymi er ómissandi og vinnur ómetanlegt starf á bakvið tjöldin!
Á myndunum má sjá annars vegar Brynju Guðjónsdóttur, Kristínu Birnu Ólafsdóttur og Véstein Hafsteinsson saman og svo hins vegar sjálfboðaliðann Rachel ásamt Brynju og Vésteini að funda saman.