Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Ólympíuleikarnir settir á stórfenglegan hátt

27.07.2024

 

Það er óhætt að segja að mikið hafi verið lagt í Setningarhátíð Ólympíuleikanna í París 2024 en hún var bæði glæsileg og tilkomumikil og farið langt út fyrir hið venjulega form, sem einkennt hefur fyrri leika. Hinni hefðbundnu inngöngu íþróttafólksins inn á keppnisleikvanginn var nú breytt í siglingu á ánni Signu í gegnum París og þurfti hvorki meira né minna en 94 báta, af ýmsum stærðum, til þess að ferja alla 10.500 keppendurna. Bátarnir voru útbúnir ýmsum þægindum, með veitingum fyrir íþróttafólkið og salernisaðstöðu, svo þeir gætu notið siglingarinnar sem tók um tvær klukkustundir. 

Siglingin hófst við Austerlitz brúnna hjá Jardin des Plantes og voru það fulltrúar Grikklands sem fóru fremstir í flokki, en hefð er fyrir því að Grikkir fari fyrstir þar sem þeir eru upphafsmenn Ólympíuleikanna. Siglingin var um 6 km löng og endaði hún hjá Trocadéro við Effelturninn, þar sem keppendur og fylgdarlið fór úr bátunum og tók þátt í setningarhátíðinni þar. Gestgjafar Frakka voru í síðasta bátnum, venju samkvæmt, en aðrar þjóðir sigldu í stafrófsröð og voru bátarnir misstórir eftir því hversu fjölmennir hópar þjóðanna voru.

Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþrautarkona, og Hákon Þór Svavarsson, skotíþróttamaður, voru glæsileg sem fánaberar fyrir hönd íslenska hópsins. Þau voru fremst í flokki og geisluðu af gleði og hreysti á bátnum. 

Á fjölmörgum stöðum um París voru stórir skjáir svo hægt væri að sjá siglinguna. Inn á milli var einnig sýnt frá stórkostlegum atriðum sem tekin voru um alla borg og tengdu við sögu og menningu Frakklands. Margar stórstjörnur, bæði franskar sem og frá öðrum þjóðum, sungu eða tóku þátt á annan hátt og gerðu setningarhátíðina stórfenglega. Það var svo Emmanuel Marcron, forseti Frakklands, sem setti Ólympíuleikana við mikinn fögnuð áhorfenda. 

Zinedine Zidane, fyrrum knattspyrnumaður franska landsliðsins, var svo sá aðili sem hóf hlaupið með Ólympíukyndilinn. Við honum tókum hins vegar margir íþróttamenn Frakklands áður en kveikt var í Ólympíueldinn. Í lokaatriðinu var það svo stórsöngkonan Celine Dion sem söng lokalagið við mikla ljósasýningu við Effelturninn. Það er óhætt að segja að Ólympíuleikarnir í París hafi verið settir á afar tilkomumikinn hátt. 

Og það er óhætt að fara að hlakka til Ólympíuveislunnar sem framundan er!

Mynd/GettyImage

 

Myndir með frétt