Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Móttaka til heiðurs ólympíuförum

12.07.2024

 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og kona hans Eliza Reid, buðu til móttöku á Bessastöðum í gær, til heiðurs þátttakendum á Ólympíuleikunum í París 2024 sem settir verða 26. júlí næstkomandi.

Til móttökunnar mættu keppendur, þjálfarar og heilbrigðisteymi, fararstjórn, dómarar sem valdir hafa verið til dómgæslu á leikunum, stjórn ÍSÍ og stjórnir sérsambanda þeirra íþrótta sem eiga keppendur á leikunum, fulltrúar þeirra fyrirtækja sem mynda Ólympíufjölskyldu ÍSÍ, franski sendiherrann á Íslandi ásamt starfsfólki ÍSÍ og viðkomandi sérsambanda. Flestir framangreindir hafa staðið í ströngu síðustu vikurnar við undirbúning fyrir leikana á einn eða annan hátt. 

Forsetahjónin tók vel á móti hópnum. Forsetinn ávarpaði hópinn og óskaði honum góðs gengis á leikunum. Hann sagðist hvergi nærri hættur að styðja við íþróttahreyfinguna þó að hann hætti sem forseti síðsumars og hvatti  hópinn og íþróttahreyfinguna til enn frekari dáða. Lárus L. Blöndal ávarpaði forsetahjónin, þakkaði þeim innilega fyrir allan þeirra stuðning við íþróttastarfið í landinu á þeim tíma sem þau hafa verið forsetahjón landsins og gaf þeim jakka og húfur úr fatalínu Ólympíuhópsins fyrir leikana. Í lok ávarpsins kynnti Lárus fánabera Íslands á leikunum, þau Guðlaugu Eddu og Hákon Þór, sjá nánar í frétt á heimasíðu ÍSÍ.

Forsetahjónin buðu upp á kaffiveitingar af bestu tegund, kleinur, pönnsur og dýrindis hjónabandssælu sem sló alveg í gegn.

Þrír keppendur af þeim fimm sem keppa munu í París fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum gátu mætt til móttökunnar, þau Hákon Þór Svavarsson skotíþróttamaður, Erna Sóley Gunnarsdóttir frjálsíþróttakona og Anton Sveinn McKee sundmaður. Guðlaug Edda Hannesdóttir þríþrautarkona og Snæfríður Sól Jórunnardóttir sundkona eru báðar við æfingar í öðrum löndum. Á myndinni má sjá þau Hákon Þór, Ernu Sóleyju og Anton Svein með forsetahjónunum og forseta ÍSÍ.

Myndir með frétt