Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Haldið var upp á Ólympíudaginn í Breiðholti í ár

24.06.2024

 

Á hverju ári er haldið upp á Alþjóða Ólympíudaginn þann 23. júní um allan heim í tilefni af því að Alþjóða Ólympíunefndin (IOC) var stofnuð á þessum degi árið 1894. Hún fagnar því 130 ára afmæli sínu í ár. 

Íþrótta-og Ólympíusambandið fagnaði deginum á fimmtudag með golfmóti Samtaka íslenskra Ólympíufara (SÍÓ) ásamt stjórn- og starfsfólki ÍSÍ og með börnum og unglingum í Breiðholti á föstudag.

Golfmótið fór fram á Bakkakotsvelli í Mosfellsdal og voru spilaðar níu holur með fyrirkomulagið sem kallast Texas scramble. Nokkrir fyrrum Ólympíufarar tóku þátt í mótinu, handknattleiksmennirnir Gunnsteinn Skúlason, Stefán Gunnarsson, Ágúst Ögmundsson og Hilmar Björnsson sem tóku þátt í leikunum 1972, og Steinar Birgisson sem tók þátt í leikunum 1984 og Elsa Nielsen, badmintonkona, sem tók þátt í leikunum 1992 og 1996. 

Á föstudaginn var deginum fagnað á frjálsíþróttasvæði ÍR í Breiðholti í samvinnu við Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) og Suðurmiðstöð. Unglingar sem lokið hafa 8. bekk og stunda vinnu í Vinnuskólanum var boðin þátttaka fyrir hádegi en eftir hádegi voru þátttakendur börn á leikjanámskeiði ÍR. Hjá unglingunum voru sex ólíkar stöðvar, þ.e. pokavarp, ringó, amerískur fótbolti, tímataka í spretti, hópeflisleikir og æfing sirkusatriða sem Jörgen Nilsson sá um að kenna. Um 80 áhugasamir unglingar mættu sem stóðu sig að öllu leyti mjög vel. Í lokin voru grillaðar pylsur og fóru allir sáttir heim.

Eftir hádegi mættu um 20 krakkarnir af leikjanámskeiði ÍR, en þau voru á aldrinum 6 - 9 ára og kom með þeim hópur virkra leiðbeinenda. Krakkarnir byrjuðu á að fara í leiki sem Jörgen Nilsson stýrði og var þeim svo skipt á þrjár stöðvar, þ.e. pokavarp, tímatöku í sprettum og æfingu sirkusatriða. Krakkarnir voru allir mjög áhugasamir og virkir og stóðu sig með stakri prýði. 
Starfsfólk Fræðslu- og almenningsíþróttasviðs ÍSÍ sá um skipulagningu og naut aðstoðar frá öðru starfsfólki ÍSÍ við að útfæra verkefni dagsins. 

Fleiri myndir frá Ólympíudeginum 2024 má finna hér.

 

 

Myndir með frétt