Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Ársþingi EOC lokið

10.06.2024

 

Ársþing Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC) fór fram í Búkarest í Rúmeníu dagana 6. og 7. júní síðastliðinn. Hörður Þorsteinsson gjaldkeri framkvæmdastjórnar ÍSÍ og Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ sóttu þingið. Einnig sat Líney Rut Halldórsdóttir ráðgjafi ÍSÍ þingið en hún á sæti í stjórn samtakanna og er formaður EOC EYOF Commission sem hefur yfirumsjón með Ólympíuhátíðum Evrópuæskunnar.

Á þinginu var farið fyir þau verkefni sem hafa verið á vettvangi EOC auk þess sem að reikningar sambandsins voru samþykktir. Þá voru kynningar á þeim verkefnum sem eru á döfinni og Líney Rut fór þar yfir stöðu þeirra Ólympíuhátíða sem eru á næstunni, s.s. Vetrarólympíuhátið Evrópuæskunnar (EYOWF) 2025, sem verður í Bakuriani í Georgíu og Sumarólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) 2025, sem fer fram í Skopje í Norður-Makedóníu. Á þinginu voru staðsetningar næstu verkefna EOC fram í tímann samþykktar:

  • Evrópuleikarnir árið 2027 - Istanbul, Tyrklandi
  • Vetrarólympíuhátið Evrópuæskunnar (EYOWF) 2027 - Brasov, Rúmeníu
  • Sumarólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) 2027 - Lignano Sabbiadoro, Ítalíu

EOC hefur nýverið ráðið Jan Lehmann frá Þýskalandi sem framkvæmdastjóra (CEO). Um er að ræða nýja stöðu hjá samtökunum. Með ráðningunni er EOC að setja aukinn kraft í sýnileika samtakanna en Jan er einnig ætlað að stýra innleiðingu á stefnu samtakanna og leita leiða til að styrkja þau enn frekar fjárhagslega.

Fulltrúar Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) ásamt fulltrúum skipuleggjenda Ólympíuleikanna í París og Vetrarólympíuleikanna í Milano Cortina 2026 fóru yfir stöðu mála.

Finnska skíðakonan Minja Korhonen hlaut Piotr Nurowski verðlaunin að þessu sinni. Hún vann meðal annars gullverðlaun á Vetrarólympíuleikum ungmenna í Gangwon í janúar sl. Verðlaunin eru veitt ungu afreksíþróttafólki.

Ítalska skotíþróttakonan Jessica Rossi og Lasha Bekauri júdókappi frá Georgíu hlutu Janez Kocijancic verðlaunin, sem voru veitt í fyrsta sinn. Um er að ræða verðlaun til þeirra sem sköruðu fram úr á Evrópuleikunum, en þeir fóru fram í Póllandi á síðasta ári.

Gunilla Lindberg framkvæmdastjóri Heimssambands Ólympíunefnda (ANOC) ræddi á þinginu hversu fá boðssæti eru til staðar á Ólympíuleikum. Um 100 þjóðir eru með færri en 10 keppendur á leikunum og alþjóðasambönd íþrótta eru að veita 1-4 boðssæti. Sagði hún tímabært að skoða þessi mál í heild sinni, þ.e. þátttökuskilyrði og kröfur. ANOC hefur lagt áherslu á aðstoð við ólympíunefndir heims, meðal annars með því að veita ljósmyndaþjónustu á stórviðburðum og aðstoð við stafræna þróun.