Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Valberg Sigfússon sæmdur Silfurmerki ÍSÍ á ársþingi UDN

26.04.2024

 

Miðvikudaginn 17. apríl var ársþing Ungmennasambands Dalamanna og Norður Breiðfirðinga (UDN) haldið í Dalabúð í Búðardal. Í lögum UDN segir að aðildarfélögin skulu skiptast á að halda þingið og var nú komið að Ungmennafélaginu Ólafi Pá, sem fagnar 115 ára afmæli í ár.  Mæting var með ágætum og var þingforseti Björn Bjarki Þorsteisson og þingritarar Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir og Jóhanna Sigrún Árnadóttir.

Engin breyting varð gerð á stjórn UDN en ýmsar lagabreytingar gerðar á þinginu.  Eitt félag gekk úr sambandinu, Ungmennafélagið Stjarnan, en það hætti hefðbundinni íþróttastarfsemi. Eftir standa sjö virk aðildarfélög. Farið var í þó nokkrar lagabreytingar eða lagabætur, t.d. uppfærðar reglurgerðir um íþróttamanneskju UDN og lottó. Til viðbótar komu tvær reglugerðir um hvatningarverðlaun. Önnur er varðar Hvatningarverðlaun UDN sem veitt eru þeim sem hafa á höndum eftirtektarverð og ábatasöm verkefni fyrir samfélagið. Hin reglugerðin er fyrir hvatningaverðlaun ungmenna sem kallast Drifskaftið. Drifskaftið er hvatningarviðurkenning sem veitt er ungu íþróttafólki sem þykir efnilegt í sinni íþrótt, sýnir metnað í ástundun og framkomu og er góð fyrirmynd. Tilgangur þessarar viðurkenningar er að styðja við og hvetja áfram unga og efnilega íþróttamenn á svæðinu.

Íþróttamanneskja UDN 2023 var valin Jóhanna Vigdís Pálmadóttir, glímukona.

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, var mættur fyrir hönd sambandsins og ávarpaði þingið. Við þetta tilefni sæmdi hann einnig Valberg Sigfússon, frá hestamannafélaginu Glað, Silfurmerki ÍSÍ fyrir hans góðu störf í þágu íþróttanna á svæðinu.

ÍSÍ óskar Valbergi innilega til hamingju með viðurkenningu og þakkar um leið fyrir hans framlag til íþróttanna í landinu.

Myndir/Jón Aðalsteinn og UDN.


Myndir með frétt