Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Lýðheilsuverðlaun forseta Íslands afhent í annað sinn

26.04.2024

 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Íslensku lýðheilsuverðlaunin í annað sinn við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í miðvikudag, 24. apríl 2024. Verðlaunin voru veitt í tveimur flokkum fyrir mikilsvert framlag til eflingar lýðheilsu á Íslandi. Í frétt á heimasíðu forsetaembættisins kemur eftirfarandi fram:

Nánar um verðlaunahafana
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, er hugsjónamanneskja með mikið baráttuþrek sem hefur barist fyrir því að opna umræðu um sjálfsvíg á opinberum vettvangi. Ásamt því hefur hún unnið í mörg ár í gegnum félagasamtök að forvörnum sjálfsvíga og stuðningi við aðstandendur þeirra sem falla fyrir eigin hendi. Guðrún Jóna stýrir nú verkefnum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna. Hún hefur aflað sér mikillar þekkingar á þessu sviði sem hún miðlar áfram af einstakri elju.

Grunnskólinn á Ísafirði hefur í 30 ár staðið fyrir fjallgönguverkefni fyrir alla árganga. Á hverju hausti fer hver bekkur í fjallgöngu sem hæfir þeirra getu innan Skutulsfjarðar. Við upphaf 10. bekkjar er farið í tveggja daga Hornstrandagöngu. Þannig hafa nemendur, sem ljúka grunnskóla, gengið á öll helstu fjöll í nágrenni. Ferðirnar eru hugsaðar til þess að nemendur læri frá ungum aldri að njóta þess að ganga á fjöll í góðum félagsskap og kynnist fjölbreyttum möguleikum til útivistar í nærumhverfi sínu.

Aðrar tilnefningar í flokki einstaklinga
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir knattspyrnukona. Samhliða glæstum ferli í atvinnumennsku hefur Gunnhildur Yrsa árum saman unnið óeigingjarnt starf í þágu fatlaðra og rutt þeim braut til þátttöku í hópíþróttum. Einungis um 4% fatlaðra barna á Íslandi stunda skipulagðar íþróttir. Gunnhildur hefur alla tíð lagt áherslu á að einstaklingar með sérþarfir eigi rétt á sömu tækifærum og aðrir til að stunda íþróttir í nærumhverfi sínu og velja sína íþróttagrein sjálfir. Hún hefur unnið frumkvöðlastarf og tekið að sér að aðstoða félög innan íþróttahreyfingarinnar við að koma á fót íþróttastarfi með fötluðum.

Ólafur Elí Magnússon. Eldhugi sem hefur unnið ötullega að hvers kyns íþróttastarfi í Rangárþingi eystra í rúm 25 ár. Bæði hefur hann sinnt íþróttakennslu í Hvolsskóla frá 1995, staðið fyrir sívinsælum íþróttaskóla fyrir 4-6 ára börn í tvo áratugi og haldið sundnámskeið á vorin. Hann hefur þjálfað íbúa í borðtennis, blaki, badminton, glímu, frjálsum og ringó svo eitthvað sé nefnt og var einn af stofnfélögum Íþróttafélagsins Dímons þar sem börn og fullorðnir í sveitarfélaginu fá tækifæri til að stunda ýmsar íþróttir.

Aðrar tilnefningar í flokki starfsheilda
Gleym mér ei – styrktarfélag. Félagið styður við foreldra og aðstandendur þeirra sem missa barn á meðgöngu, í fæðingu eða á fyrstu mánuðum eftir fæðingu. Gleym mér ei var stofnað af þremur konum sem allar höfðu gengið í gegnum slíkan missi. Stuðningur í þeim aðstæðum er mikilvægur og bæði þarf að auka skilning samfélagsins á sorginni og standa vörð um hagsmuni syrgjandi foreldra. Félagið hefur stuðlað að því að bæta umgjörð og stuðning innan heilbrigðisþjónustunnar. Hjá félaginu geta foreldrar leitað stuðnings í gegnum ráðgjafasamtöl, jafningjafræðslu, samverustundir og fræðslu.
 
Traustur kjarni. Félagasamtök sem standa fyrir námskeiðum í jafningjastuðningi. Kennd er samskiptatækni sem hjálpar fólki að greina áhrif áfalla á eigin getu til að mynda uppbyggileg sambönd. Jafningjastuðningur felst meðal annars í því að nýta eigin reynslu af geðrænum áskorunum til þess að vera til staðar fyrir aðra sem á þurfa að halda. Traustur kjarni hefur einsett sér að gera námskeiðin aðgengileg öllum.

Stofnað var til Íslensku lýðheilsuverðlaunanna árið 2023 að frumkvæði forseta Íslands í samstarfi við Geðhjálp, embætti landlæknis, heilbrigðisráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Í febrúar var kallað eftir tillögum frá almenningi að verðugum verðlaunahöfum og var valnefnd falið að fjalla um tillögurnar, tilnefna þrjá í hvorum flokki og velja loks einn einstakling og eina starfsheild sem sæmd voru þessum verðlaunum. Öll hin tilnefndu fengu viðurkenningarskjal við hátíðlega athöfn.

Myndin er af verðlaunahöfunum og foresta Íslands. Ljósmyndari Anton Brink.

Fleiri myndir má finna af athöfninni á heimasíðu forseta Íslands

ÍSÍ óskar verðlaunahöfum og þeim sem tilnefndir voru til hamingju með viðurkenningarnar sínar.