Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

3

Ársþing KRAFT

10.04.2024

 

Ársþing Kraftlyftingasambands Íslands (KRAFT) fór fram 9. mars sl. að viðstöddu fjölmenni í Stjörnuheimilinu í Garðabæ. Valdimar Leó Friðriksson var kosinn þingforseti en Laufey Agnarsdóttir þingritari.

Engar tillögur að lagabreytingum voru lagðar fyrir þingið en stjórn KRAFT lagði fram svohljóðandi ályktun: Ársþing KRAFT samþykki að kraftlyftingahreyfingin á Íslandi starfi eftir viðbragðsáætlun Íþrótta- og æskulýðsstarfs sem útgefin var árið 2022. Fundarmenn samþykktu ályktunina samhljóða.
 
Hinrik Pálsson, núverandi formaður KRAFT, var einn í kjöri til formanns og því réttkjörinn. Aron Ingi Gautason, Laufey Agnarsdóttir og Þórunn Brynja Jónasdóttir buðu sig einnig fram til endurkjörs og þar sem engin önnur framboð komu fram voru þau einnig réttkjörin.

Á þinginu veitti Hinrik Pálsson, formaður, viðurkenningar þeim einstaklingum og félögum sem sköruðu fram úr á árinu 2023.
Kraftlyftingakona ársins: Sóley Margrét Jónsdóttir, Breiðablik.
Kraftlyftingakarl ársins: Alexander Örn Kárason, Breiðablik.
Stigahæsta lið ársins í kvennaflokki: Massi, Ungmennafélagi Njarðvíkur.
Stigahæsta lið ársins í karlaflokki: Breiðablik.
 
Þá tóku við ávörp gesta. Vésteinn Hafsteinsson, Afreksstjóri ÍSÍ, flutti ávarp „Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs“ og Kristín Skjaldardóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs ÍSÍ, flutti ávarp þar sem hún ítrekaði mikilvægi þess að sambandið kjósi um Viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf.
 
Í lokin flutti Ellert Björn Ómarsson erindi þar sem hann greindi frá undirbúningi heimsmeistaramótsins í kraftlyftingum sem fram fer í Njarðvík 11.- 17. nóvember nk. Undirbúningur er vel á veg kominn og er búist við miklum fjölda keppenda því á mótinu verður hægt er að vinna sér inn keppnisrétt á Heimsleikunum 2025 (World Games).

Myndirnar sem fylgja voru teknar á þinginu.  Á fyrstu myndinni er Hinrik Pálsson ásamt kraftlyftingmönnum úr Breiðablik. Á annarri myndinni er Hinrik ásamt Sóleyju Margréti Jónsdóttur og á þriðju myndinni Hinrik og Alexander Örn Kárason. Á síðustu myndinni er Hinrik ásamt kraftlyftingakonum úr Massa.

Myndir/María Guðsteinsdóttir.

Myndir með frétt