Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Héraðsþing UMSK haldið í hundraðasta skipti

03.04.2024

 

100. Héraðsþing Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) var haldið fimmtudaginn 21. mars síðastliðinn í hátíðarsal Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar.

Halla Garðarsdóttir, sem setið hafði í stjórn UMSK gaf ekki kost á sér áfram og var Margrét Dögg Halldórsdóttir kjörin í hennar stað til tveggja ára en Margrét hafði áður setið í varastjórn. Matthildur B. Stefánsdóttir frá Breiðablik var þá kjörin í varastjórn í stað Margrétar en stjórn UMSK er skipuð: Guðmundi Sigurbergssyni, formanni, Lárusi B. Lárussyni, varaformanni, Þorsteini Þorbergssyni, gjaldkera, Gerarði Long og Margréti Dögg Halldórsdóttur.  Varastjórn er skipuð: Matthildi B. Stefánsdóttur, Rakel Másdóttur og Sigurjóni Sigurðssyni.  

Á þinginu var samþykkt breytt fyrirkomulag á aðildargjöldum félaga UMSK sem mun byggja á tilteknu grunngjaldi allra félaga ásamt vissri krónutölu á hverja iðkun innan hvers félags. Þá voru einnig samþykktar minniháttar breytingar á lögum UMSK sem bíða nú staðfestingar ÍSÍ.

Valdimar Leó Friðriksson, formaður söguritunarnefdar UMSK ávarpaði þingið og kynnti formlega útgáfu Aldarsögu UMSK. Á síðustu áratugum hefur fjöldi aðildarfélaga UMSK aukist mjög og á aldarafmælinu voru þau orðin um 50 talsins en Aldarsaga UMSK er  aðgengileg á heimasíðu UMSK.

Íþróttafólk ársins og lið ársins 2023 voru verðlaunuð.  Thelma Aðalsteinsdóttir, fimleikakona úr Gerplu, var valin íþróttakona UMSK 2023, og Friðbjörn Bragi Hlynsson, kraftlyftingamaður hjá Stjörnunni, íþróttamaður UMSK 2023. Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hjá Breiðablik var lið ársins 2023.

Þá hlaut Birna Kristín Jónsdóttir, hjá Aftureldingu, Félagsmálaskjöld UMSK 2024.  Álftanes fékk Hvatningarverðlaun UMSK 2024 fyrir metnaðarfullt starf körfuknattleiksdeildar og Karatefélag Garðabæjar fyrir metnaðarfullt starf í þágu ungmenna.

Þá voru ýmsar heiðranir á vegum UMSK, ÍSÍ og UMFÍ.  Nánari upplýsingar um heiðranir má finna í frétt á heimasíðu UMSK sem og myndir af myndasíðu UMSK.  Fyrir hönd ÍSÍ var Hafsteinn Pálsson, formaður Heiðursráðs ÍSÍ og meðstjórnandi í framkvæmdastjórn ÍSÍ mættur og sá hann um heiðursviðurkenningar ásamt því að ávarpa þingið.  Sér frétt um heiðranir ÍSÍ má finna á heimasíðu ÍSÍ.