Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Íslandsleikarnir fóru fram í fyrsta sinn

18.03.2024

 

Um helgina fóru Íslandsleikarnir fram í fyrsta skipti á Akureyri, en Íslandsleikarnir eru nýtt mót sem sérstaklega er ætlað börnum með sérþarfir. Mótið er liður í verkefninu Allir með sem er verkefni ÍF, ÍSÍ og UMFÍ og er meginmarkmið þess að fjölga börnum og unglingum með fatlanir í skipulögðu íþróttastarfi, en einungis 4% barna með fatlanir eru virk í íþróttum með íþróttafélögum. 

Á mótið komu körfuboltalið frá Haukum og knattspyrnulið frá Stjörnunni/Ösp. Þjálfarar liðanna þær Bára Fanney Hálfdánardóttir sem þjálfar Hauka og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir þjálfari Stjörnunnar/Ösp héldu utan um skipulagið. Haldnar voru opnar æfingar þar sem börn með sérþarfir á Norðurlandi voru boðin sérstaklega velkomin og svo var keppt bæði í körfubolta og fótbolta þar sem ófatlaðir einstaklingar frá Þór og Þór/KA voru með. En vert er að geta þess sérstaklega hversu áhugasöm þau voru og stóðu sig virkilega vel.

Markmið mótsins var að gefa börnum með sérþarfir möguleika á að fara í keppnisferð í rútu og gista í skólastofu eins og ófatlaðir jafnaldrar þeirra í íþróttum hafa margoft upplifað. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson heilsaði upp á krakkana og vakti það mikla lukku, en hann gaf sér góðan tíma í myndatökur og spjall.

Akureyringar eiga þakkir skildar fyrir frábærar móttökur og fyrir að hjálpa til við að skapa ógleymanlegar minningar hjá börnum, foreldrum og öðrum sem létu leikana verða að veruleika. Þeir eru komnir til að vera. 

Hér er hlekkur á myndband sem Magnús Orri Arnarson útbjó en hann tók einnig myndirnar sem birtast með fréttinni. 

Myndir með frétt