Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Sextán störf á nýjum svæðisskrifstofum íþróttahreyfingarinnar

08.03.2024

 

Sextán störf á nýjum svæðisstöðvum íþróttahreyfingarinnar verða auglýst á næstu dögum. Svæðisstöðvarnar byggja á samhljóða tillögu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) og felur í sér að komið verði á fót átta stöðvum með tveimur stöðugildum á hverju svæði sem muni þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins með samræmdum hætti.

Tillagan var samþykkt á þingi ÍSÍ í fyrravor og á þingi UMFÍ í fyrrahaust. Samhliða því var gerð breyting á greiðslu fjármagns til íþróttahéraða frá ÍSÍ og UMFÍ sem felur í sér, að af því fjármagni sem fer til íþróttahéraða, þá sé 85% fjármagnsins greitt til þeirra miðað við opinberar tölur um íbúafjölda 0-18 ára. 15% af fjármagninu fara til reksturs sameiginlegra svæðastöðva.  

Stofnun starfsstöðvanna átta fellur að áherslum og stefnu mennta- og barnamálaráðuneytisins í íþróttamálum til ársins 2030. Horft er til þess að auka íþróttaþátttöku barna og ungmenna, auka áherslu á þátttöku fatlaðra barna í íþróttastarfi, ná betur til barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. 

Eitt af markmiðum stefnumótunarinnar er jafnframt að ÍSÍ og UMFÍ skilgreini hlutverk íþróttahéraða að nýju og meti starfsemi þeirra með það að leiðarljósi að efla hana enn frekar. Til viðbótar er horft til samlegðaráhrifa við verkefni ríkis og sveitarfélaga, s.s. samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, skólaþjónustu og æskulýðsstarf. 

Tenglaráð sem skipað er tengiliðum sem íþróttahéruðin tilnefndu og frá öllum fyrirhuguðum svæðum komu saman í Laugardalnum hefur unnið að verkefninu um nokkurt skeið með forystu ÍSÍ og UMFÍ og ráðgjöf frá Intellecta. Nú liggur ramminn að störfunum fyrir, starfs- og verkefnalýsingar hafa verið útlistaðar og búnir til mælikvarðar til að meta árangur af starfinu. Hefur málið verið kynnt öllum íþróttahéruðum og stjórnum ÍSÍ og UMFÍ og því komið að því að auglýsa störfin.  Stefnt er að því að starfsemi svæðisskrifstofanna hefjist nú í vor.

Myndin sem fylgir var tekin þegar tenglaráðið kom saman til vinnufundar í Laugardalnum. Ljósmyndari/Jón Aðalsteinn, UMFÍ.

Nánari upplýsingar má finna hér.