Blönduð keppni kynja í glímu ekki lengur bönnuð
60. ársþing Glímusambands Íslands fór fram 17. febrúar sl. á Blönduósi. Þingið gekk vel en á það mættu 12 þingfulltrúar auk fjölda annara glímuáhugamanna. Kjartan Lárusson var þingforseti og Kristín Embla Guðjónsdóttir þingritari auk þess sem Hafsteinn Pálsson, meðlimur í framkvæmdastjórn ÍSÍ mætti á þingið fyrir hönd sambandsins.
Farið var yfir ársskýrslu og ársreikninga og samþykktu þingfulltrúar þá lagabreytingu að taka út lagagrein þess efnis að blönduð keppni kynja í glímu sé bönnuð.
Guðmundur Stefán Gunnarsson var kosinn formaður sambandsins á þinginu og með honum í stjórn Einar Eyþórsson, Jana Lind Ellertsdóttir, Marín Laufey Davíðsdóttir og Óttar Ottósson.
Jóhann Pálmason var heiðraður og er nú kominn í hóp Heiðursfélaga GLÍ en hann hefur sinnt glímustarfi á Vesturlandi í hjartnær þrjá áratugi og er vel að viðurkenningunni kominn. Auk hans fengu Óttar Ottósson silfurmerki GLÍ, Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir, Hjörtur Elí Steindórsson og Marín Laufey Davíðsdóttir bronsmerki GLÍ.
Mynd frá þinginu af heiðurshafa og þeim sem sæmdir voru silfur- og bronsmerki GLÍ/GLÍ