Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Íslensku lýðheilsuverðlaunin afhent í annað sinn

29.02.2024

 

Forseti Íslands hefur auglýst eftir tillögum frá almenningi um hver ætti að hljóta Íslensku lýðheilsuverðlaunin 2024 sem veitt verða á Bessastöðum í síðari hluta apríl. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á mikilsverðu framlagi á sviði lýðheilsu og auka með þeim hætti áhuga á bættri heilsu og líðan almennings. 

Veitt verða verðlaun í tveimur flokkum.  Annars vegar til einstaklings og hins vegar til samtaka, stofnunar eða fyrirtækis sem hafa látið gott af sér leiða á þessu sviði. Almenningur er hvattur til að senda inn tillögur að verðugum verðlaunahöfum ásamt rökstuðningi á vefsíðunni lydheilsuverdlaun.is, en fresturinn rennur út 24. mars.

Þetta er í annað sinn sem óskað er eftir tillögum fyrir Íslensku lýðheilsuverðlaunin en þau voru afhent í fyrsta skipti vorið 2023. Þá hlaut Snorri Már Snorrason verðlaunin í einstaklingsflokki en í flokki starfsheilda varð Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands fyrir valinu. Hátt í 350 tillögur bárust frá almenningi.

Lýðheilsa er samheiti yfir bæði heilsuvernd og forvarnir. Lýðheilsustarf byggir á samvinnu um að bæta heilbrigði þjóðarinnar, líðan og lífsgæði í samfélaginu. Að Íslensku lýðheilsuverðlaununum standa heilbrigðisráðuneytið, embætti landlæknis, Geðhjálp og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, auk embættis forseta Íslands. 

ÍSÍ hvetur almenning til að taka þátt og senda inn tilnefningar.  

Myndir með frétt