Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Ólympísk tímamót

28.01.2024

 

Ýmis tímamót hafa runnið upp undanfarna daga.

Þann 25. janúar voru 100 ár frá fyrstu Vetrarólympíuleikunum. Voru þeir haldnir í Chamonix í Frakklandi. Ísland átti ekki fulltrúa á þeim leikum heldur hóf sína þátttöku í Vetrarólympíuleikum árið 1948 í St. Moritz í Sviss. Síðan þá hefur Ísland sent keppendur til Vetrarólympíuleika óslitið fyrir utan leikana í Sapporo í Japan árið 1972. Næstu Vetrarólympíuleikar verða árið 2026 á Ítalíu.  Í upphafi voru Vetrarólympíuleikar og Sumarólympíuleikar haldnir á sama árinu en síðar var því breytt yfir í það skipulag sem nú er, þ.e. að tvö ár eru á milli leikanna.

Þann 26. janúar voru sex mánuðir í Sumarólympíuleikana í París en þeir hefjast 26. júlí næstkomandi. Undirbúningur fyrir leikana hófst, má segja, um leið og leikunum í Tókýó lauk en sumir þættir í undirbúningi skýrast ekki fyrr en á lokasprettinum. Sem dæmi má nefna að íþróttafólk í ýmsum greinum getur verið að tryggja sér keppnisrétt á leikana langt fram á næstkomandi sumar svo að erfitt er að segja til um endanlegan fjölda þátttakenda fyrr en rétt fyrir leika. Fjöldi þátttakenda hefur áhrif á ferðaskipulag, búnaðarkaup, fjölda í fagteymi og ýmislegt annað er varðar þátttökuna og aðbúnað. Mikil eftirvænting ríkir fyrir leikunum í París og án efa verða viðburðir leikanna stórkostlegir, hvort sem um er að ræða setningarhátíðina á ánni Signu eða keppni á keppnissvæðum við helstu kennileiti Parísarborgar, svo eitthvað sé nefnt.

Í dag, 28. janúar, eru svo 112 ár frá stofnun ÍSÍ. Allt fram til ársins 1997 hét sambandið Íþróttasamband Íslands en við sameiningu sambandsins við Óympíunefnd Íslands var nafni sambandsins breytt í Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.

Íþróttahreyfingin fer stækkandi með ári hverju og er síbreytileg, eins og gengur og gerist með sjálfboðaliðahreyfingu. Tækifærin eru fjölmörg og alltaf eru spennandi verkefni í undirbúningi. 

Myndirnar sem hér fylgja eru af íslenskum þátttakendum á Vetrarólympíuleikum í Sarajevo árið 1984 (svart/hvít) og í Albertville 1992. 

Myndir með frétt