Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Fréttir frá Gangwon

22.01.2024

 

Keppni er hafin á Vetrarólympíuleikum ungmenna í Gangwon í Suður-Kóreu. Keppendur í alpagreinum mættu fyrst á svæðið, 18. janúar sl. Þau voru viðstödd setningarhátíð leikanna, 19. janúar, sem bauð upp á frábæra ljósasýningu, söng, dans í bland við hefðbundin dagskráratriði. Myndirnar sem hér fylgja með eru annars vegar af keppendum alpagreina, þeim Eyrúnu Erlu, Þórdísi Helgu og Degi Ými, ásamt Agli, þjálfara þeirra og hins vegar af fánaberum Íslands á setningarhátíð leikanna, þeim Eyrúnu Erlu og Degi Ými.

Æfinga- og keppnismannvirkið er nánast í þorpinu sem keppendur alpagreina dvelja í og tekur 5 mín. að ganga að kláfunum. Á hefðbundnum degi hjá þátttakendum alpagreina er dagskráin eitthvað á þessa leið: morgunverður, preppa skíðin, æfing, hádegismatur, preppa skíðin, æfing, kvöldmatur og síðan farið inn á herbergin í næði. Keppendur eru með námsefni með sér og þurfa að sinna því.

Þann 20. janúar fjölgaði á svæðinu. Júlíetta Iðunn, keppandi í snjóbrettum og föruneyti mættu á leikana. Þorpið sem snjóbrettakeppendur dvelja í er hýsir 1.700 keppendur og fylgdarlið til viðbótar. Það er um 80 mín. akstur frá því þorpi í fjallið þar sem keppt verður, Welli Hilli Park.

Brynja Guðjónsdóttir aðalfararstjóri hefur í nógu að snúast. Fæstir af sjálfboðaliðunum tala ensku og því nauðsynlegt að vera lausnamiðaður í samskiptum við aðstoðarfólk hópsins. Stundum hefur öruggasta aðferðin við að koma tímasetningum á framfæri við rútubílstjórana verið að skrifa tímann í snjóinn!

Auk Brynju eru með hópnum Brynja Þorsteinsdóttir flokksstjóri frá SKÍ, þrír þjálfarar og tveir sjúkraþjálfarar. Halda þau vel utan um íslenska hópinn. Fram að þessu hefur verið nokkuð milt veður, hitastig dansar kringum 0 gráður yfir daginn. Á laugardaginn var mikil snjókoma en lítil ofankoma hina dagana. Framundan er þó vaxandi kuldi og vindur. Keppendur hafa verið að aðlagast tímamismuninum á milli Íslands og Suður-Kóreu sem er níu klukkustundir.

Skíðagönguteymið kemur til Gangwon 23. janúar.

Myndir með frétt