Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Vel heppnuð ráðstefna um 5C í Nottingham Englandi

22.01.2024

 

Föstudaginn 12. janúar sl. var haldin 5C ráðstefna í Nottingham Trent háskólanum í Englandi sem bar yfirskriftina The 5Cs Framework in Youth Sport: Critical Reflections on Practice and Advancements in Applications! Ráðstefnan var síðasti viðburðurinn í tengslum við Erasmus + samstarfsverkefni um innleiðingu á sálfélagslegri þjálfun með aðferðafræði 5C á Íslandi. 

Ráðstefnan var tvískipt. Í fyrri hlutanum var fjallað um innleiðingu 5C hjá tveimur íþróttafélögum á Íslandi, annars vegar Fimleikadeild Ármanns og hins vegar Knattspyrnudeild Fylkis. Í seinni hlutanum var fjallað um mismunandi notkun 5C hjá knattspyrnuakademíum Aston Villa og Leicester ásamt afrekssviði MK. 

Í fyrrihlutanum fóru Dr. Chris Harwood, Þórarinn Alvar Þórarinsson og Dr. Hafrún Kristjánsdóttir yfir tilurð verkefnsins, mikilvægi þess og aðferðarfræði rannsóknarhlutans. Þetta Erasmus+ verkefni er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ, Háskólans í Reykjavík, Loughborough háskóla, Notthingham Trent háskóla, Fimleikasambands Íslands og Knattspyrnusambands Íslands um að prufa innleiðingu á þessari aðferðafræði 5C,  sem Chris Harwood prófessor, hannaði hjá tveimur íþróttafélögum (deildum). Verkefnið hófst árið 2021 og er nú að renna sitt skeið á enda. 

Daði Rafnsson fór yfir innleiðingu á verkefninu, áskoranir sem þurfti að takast á við og þær lausnir sem gripið var til. Einnig var rætt um hvað mætti gera betur og var ráðstefnugestum boðið uppá að taka þátt í þeim umræðum. Hvað gætu þeir sem starfa við innleiðingu á 5C nýtt sér úr þessu verkefni? Til að loka fyrri hlutanum fjallaði Dr. Hafrún Kristjánsdóttir um helstu niðurstöður sem nú þegar liggja fyrir hjá rannsóknarhópnum. Eitt af því sem stóð upp úr var ánægja iðkenda með verkefnið og að þjálfurum fannst þeir fá tæki sem þeir gátu nýtt sér við þjálfun sálfélagslegra þátta.

Í seinni hluta ráðstefnunnar var sjónum vikið að þeim aðferðum sem verið er að nota til að innleiða 5C inn í starfsemi íþróttafélaga. Karl Steptoe, íþróttasálfræðingur hjá Tottenham, dró fram hvað hann hefur lært af því að vinna með þessa aðferðafræði, í 10 ár. Frá því að hugsa þetta sem persónulega hugmyndafræði við þjálfun í að horfa á þetta meira sem hluta af menningu íþróttafélags.
Næst tóku til máls Ben Walker, Roisin Kelly og Tim Wyatt frá Leicester City akademíunni. Þau starfa öll sem íþróttasálfræðingar og fjölluðu þau um hvernig þau hafa unnið með starfsfólki úr ólíkum áttum innan veggja Leicester til að flétta 5C inn í alla anga starfseminnar og gera hana að áþreifanlegum hluta hvar sem stígið er niður fæti innan Leicester City.

Fulltrúar frá Akademíu Aston Villa voru Emma Weir og Kieran Porter. Þau sýndu dæmi um aðferðir sem þau hafa notað til að einfalda sálfræðina úr 5C fyrir yngri iðkendur. Þannig hafa þau notast við teiknimyndahetjur til að einkenna hvert C fyrir sig. Mikilvægt er að einfalda tungutak og málfar í tengslum við samtal um andlega þætti og þurfa þjálfarar að aðlaga efnið eftir aldri og þroska iðkenda.

Daði Rafnsson, fagstjóri afrekssviðs MK og doktorsnemi í HR, veitti innsýn í fjölbreytta notkun 5C, hvort sem það var í umhverfi íþrótta eða innan veggja MK. Sýndi hann fram á notagildi 5C spilanna sem hafa verið þróuð í tengslum við verkefnið og mikla ánægju nemenda og íþróttafólks með spilin. 

Dr. Chris Harwood fjallaði svo um mikilvægi þess að vinna með foreldrum og dró hann fram aðferðir 5C sem hann hefur notað við kennslu til foreldra barna sem spila tennis sem dæmi. Aðferðafræðin og innihald 5C gefa frábær tækifæri til að eiga samtöl um íþróttir, en ekki síður um athafnir og hegðun í daglegu lífi iðkenda og foreldra. 

Í lokin var boðið uppá kynningu á framtíðarstefnu 5C og það sem framundan er. Einnig gafst tími í umræður og samtöl um hvað væri gagnlegt fyrir þá sem vilja innleiða 5C að hafa í farteskinu, sem gæti einfaldað þeim lífið og stutt við störf þeirra til að fylgja svona innleiðingu eftir.


Ráðstefna þessi var síðasti hluti af þessu þriggja ára Erasmus+ verkefni. Unnið er að því að klára heimasíðu í tengslum við 5C (www.5c.is) og einnig er verið að vinna að því að setja upp námskeið fyrir þjálfara um 5C. Starfsfólk við Háskólann í Reykjavík og Notthingham Trent háskóla munu halda áfram að vinna úr gögnum rannsóknarinnar á verkefninu, fara yfir niðurstöður spurningakannanna og viðtöl við þjálfara, iðkendur og foreldra. Á næstu mánuðum munu þau svo fjalla um helstu niðurstöður í vísindagreinum og erindum á innlendum sem erlendum ráðstefnum.

Ráðstefnan þótti takast mjög vel, þar sem fyrirlesararnir voru með mjög áhugaverð erindi og ráðstefnugestir ánægðir með skipulag og framkvæmd ráðstefnunnar en um 80 manns hlýddu á.  

Myndirnar tók Þórarinn Alvar og sýna frá ráðstefnunni.  

Myndir með frétt