Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Heiðursviðurkenningar á Íþróttamanni ársins

08.01.2024

 

Íþróttaeldhugi ársins 2023 var valinn við hátíðlega athöfn á Íþróttamanni ársins fimmtudaginn 4. janúar sl. Þrír einstaklingar voru valdir úr fjölda tilnefninga sem bárust ÍSÍ, úr íþróttahreyfingunni og frá almenningi og voru þau heiðruð sama kvöld fyrir þeirra ómetanlegu störf.  
Edvard Skúlason, sem starfað hefur fyrir Knattspyrnufélagið Val (knattspyrna),
Guðrún Kristín Einarsdóttir, sem starfað hefur fyrir Aftureldingu og Blaksamband Íslands (blak), 
Ólafur Elí Magnússon, sem starfað hefur fyrir Íþróttafélagið Dímon (borðtennis, glíma, blak, badminton og frjálsíþróttir).

Við þetta tækifæri, sæmdi Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, þá Edvard Skúlason og Ólaf Elí Magnússon Gullmerki ÍSÍ fyrir þeirra ómetanlegu sjálfboðaliðastörf í þágu íþróttanna en Guðrún Kristín Einarsdóttir hafði verið sæmd Gullmerki ÍSÍ árið 2016. 

Edvard Skúlason hefur starfað fyrir Knattspyrnufélagið Val. Hann gekk í félagið ungur og keppti fyrir Val sem unglingur. Hann kom fyrst í stjórn knattspyrnudeildar Vals árið 1976 og var í mörg ár formaður barna og unglingaráðs. Edvard var í fjölda mörg ár starfandi sjálfboðaliði fyrir knattspyrnudeildina. Síðustu 30 ár hefur hann verið starfsmaður og öryggisvörður á heimaleikjum Vals í knattspyrnu, karla og kvenna. Þegar úrslitakeppni hefst á vorin í handknattleik og körfubolta mætir Edvard til að aðstoða við öryggisgæslu og hvað annað sem til fellur. Edvard mætir aldrei einn því synir hans, barnabörn og tengdabörn mæta með honum til starfa.  

Ólafur Elí Magnússon hefur starfað fyrir Íþróttafélagið Dímon. Hann hefur um langt skeið unnið ómetanlega að íþróttastarfi barna og ungmenna í Rangárþingi eystra og verið óþreytandi í að gefa tíma sinn til þeirra málefna hvort sem er í gegnum íþróttafélagið Dímon eða á öðrum vettvangi. Hann hefur í um 30 ár staðið fyrir æfingum í mörgum íþróttagreinum og hvatt börn og unglinga í félaginu til að taka þátt í mótum. Ólafur hefur fylgt keppendum á mót og ekki talið það eftir sér að keyra þá um allt land. Ólafur hefur prívat og persónulega staðið fyrir íþróttaskóla fyrir tvo elstu árganga leikskólans í yfir 25 ár og þannig stuðlað að áframhaldandi íþróttaiðkun þeirra, endurgjaldslaust. Ólafur hefur setið í aðalstjórn Íþróttafélagsins Dímonar um margra ára skeið auk þess sem hann á sæti í stjórnum borðtennis-, frjálsíþrótta- og glímudeilda félagsins. 

Á myndinni má sjá íþróttaeldhuganna þrjá sem útnefndir voru fyrir árið 2023; Ólafur Elí stendur lengst til vinstri, þá Guðrún Kristín og svo Edvard Skúlason.  Mynd/Viktor Örn Guðlaugsson.

ÍSÍ óskar Edvardi og Ólafi Elí innilega til hamingju með Gullmerkin og þakkar þeim fyrir þeirra framlag í þágu íþróttanna í landinu.