Viðurkenningin fordæmisgefandi fyrir íþróttafélög bæjarins
Íþróttabandalag Hafnarfjarðar fékk endurnýjun viðurkenningar íþróttahéraðsins sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ á Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar 27. desember síðastliðinn. Það var Hrafnkell Marinósson formaður ÍBH sem tók við viðurkenningunni úr hendi Þóreyjar Eddu Elísdóttur 1. varaforseta ÍSÍ. Stjórn ÍBH telur það mikilvægt að þaksamtök íþróttafélaga í Hafnarfirði hafi þessa viðurkenningu gilda sem m.a. er fordæmisgefandi fyrir íþróttafélög bæjarins og ætti að hvetja þau til að gera slíkt hið sama. Á myndinni eru þau Þórey Edda Elísdóttir og Hrafnkell Marinósson. Myndina tók Tanja Dís Magnúsdóttir.
„Á árinu 2023 byrjaði ÍBH að veita aðildarfélögum sínum hvatastyrk að upphæð kr. 450.000.- fyrir að ávinna sér gæðaviðurkenninguna Fyrirmyndarfélag/-deild ÍSÍ. Hvatastyrkurinn er partur af samningi milli ÍBH, fyrirtækisins Rio Tinto og Hafnarfjarðarbæjar. Rio Tinto, ÍBH og Hafnarfjarðarbær telja það vera bæði mikilvægt og dýrmætt að allar starfseiningar íþróttahreyfingarinnar í Hafnarfirði ávinni sér gæðaviðurkenninguna“ sagði Elísabet Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ÍBH af þessu tilefni.