Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

53. Sambandsþing UMFÍ var haldið 20. - 22. október

23.10.2023

 

53. Sambandsþing Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) var sett föstudaginn 20. október og haldið um liðna helgi á Hótel Geysi í Haukadal. Þingið var vel sótt en um 180 þingfulltrúar og gestir voru mættir og var samstaðan virkilega góð að sögn Auðar Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ. Þórir Haraldsson og Olga Bjarnadóttir voru þingforsetar. 

Stærsta málið á þinginu var sú tillaga sem felur í sér stofnun svæðaskrifstofa íþróttahéraða víða um land í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og stjórnvöld. Af lottógreiðslum til UMFÍ áttu 15% að fara til reksturs svæðaskrifstofanna og 85% til íþróttahéraða eftir íbúafjölda 18 ára og yngri. Skv. tillögunni á að koma á fót átta svæðastöðvum með sextán stöðugildum sem munu þjónusta íþróttahéruð landsins með samræmdum hætti. Það er gleðilegt að segja frá því að tillagan var einróma samþykkt og er næst á dagskrá að ná samningum við ríkið um að það leggi fram sambærilegan fjárstuðning til svæðisskrifstofunnar og UMFÍ og ÍSÍ muni leggja til svo hægt verði að tryggja reksturinn.   

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, var gestur við setningu sambandsþing UMFÍ í gær og flutti þar ávarp. Hann sagði að búið væri að tryggja einn starfsmann á hvert starfssvæði, sem tillagan kveður á um, og fjármagn til að viðkomandi geti sinnt vinnu sinni. Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, var einnig boðið en átti ekki heimagengt og sendi rafræna kveðju. Þar sagði hann að lýðheilsa snýst ekki um eilífan samanburð, eilíft álag né eilífa keppni við sjálfan sig og aðra heldur eigi þær að snúast um jákvæðan hvata og heilbrigt sjálfstraust án alls metings og monts.  

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, var einnig á meðal gesta þingsins og flutti ávarp. Garðar Svansson, meðstjórnandi í framkvæmdastjórn ÍSÍ, hlaut svo gullmerki UMFÍ fyrir góð störf í þágu hreyfingarinnar.

Þá var einnig kosið í nýja stjórn og var Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, sjálfkjörinn í embætti formanns.   

Í aðalstjórn voru kosin eftirfarandi:   
Guðmundur G. Sigurbergsson – Ungmennasambandi Kjalarnesþings,
Gunnar Þ. Gestsson – Ungmennasambandi Skagafjarðar, 
Gunnar Gunnarsson – Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands, 
Málfríður Sigurhansdóttir – Íþróttabandalagi Reykjavíkur,
Ragnheiður Högnadóttir – Ungmennasambandi Vestur-Skaftafellssýslu,
Sigurður Óskar Jónsson – Ungmennasambandinu Úlfljóti

Og í varastjórn eru:  
Ásgeir Sveinsson – Héraðssambandinu Hrafna-Flóka,
Guðmunda Ólafsdóttir - Íþróttabandalagi Akraness,
Hallbera Eiríksdóttir - Ungmennasamband Borgarfjarðar,
Rakel Másdóttir - Ungmennasambandi Kjalarnesþings

Rakel og Ásgeir koma ný inn í stjórnina í stað þeirra Lárusar B. Lárussonar og Gissurar Jónssonar.

Myndirnar voru teknar á Sambandsþinginu.  Þar má sjá Andra Stefánsson, framkvæmdastjóra, í pontu sem og Olgu Bjarnadóttur, 2. varaforseta ÍSÍ.  Einnig Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.  Þá eru saman Garðar Svansson og Hjörleifur Kr. Hjörleifsson við afhendingu Gullmerkisins.  Að lokum má sjá Jóhann Steinar Ingimundarson og Andra Stefánsson saman á mynd þegar verkefnið Allir með var kynnt.  Á síðustu myndinni eru m.a. Auður Inga Þorsteinsdóttir, Jóhann Steinar, Ásmundur Einar, Andri Stefánsson, Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri Allir með og Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri útbreiðslu- og fræðslusviðs Íþróttasambands fatlaðra. 

Frekari upplýsingar má finn á heimasíðu UMFÍ.

Myndir með frétt