Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi
Mánudaginn 20. nóvember næstkomandi mun Mennta- og barnamálaráðuneytið, í samstarfi við ÍSÍ, UMFÍ og Samband íslenskra sveitarfélaga, boða til ráðstefnunnar Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi. Ráðstefnan verður haldin í Gullteig á Grand Hótel Reykjavík og verður jafnframt streymt frá henni, fyrir þá sem ekki komast. Kynnt verða áform um eflingu afreksíþróttastarfs auk þess sem fulltrúar íþróttahreyfingarinnar og aðrir ráðstefnugestir munu koma að mótun tillagnanna.
Á ráðstefnunni verða eftirfarandi spurningar til umræðu en vinnuhópur um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks á vegum ráðuneytisins vinnur nú að því að svara þeim og leiðir Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ og sérfræðingur hjá ráðuneytinu, þann starfshóp:
Hvernig skörum við fram úr?
Hvert er besta fyrirkomulagið?
Hvað getum við lært af öðrum?
Hvernig styðjum við best við afreksíþróttafólk?
Á ráðstefnunni verða kynnt áform um stóreflingu afreksíþróttastarfs á Íslandi með bættri aðstöðu, stuðningi og réttindum fyrir afreksíþróttafólk. Fjallað verður um hvernig skapa megi umgjörð fyrir unga íþróttaiðkendur til að vaxa og dafna, jafnt í þéttbýli og dreifbýli. Þá mun þjóðþekkt afreksíþróttafólk koma sínum áherslum á framfæri og verður aðkoma sveitarfélaga og atvinnulífsins tekin fyrir.
Ráðstefnan verður á milli kl.09.00 og16.00 og er opin öllum. Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt er að skrá sig.
Opið er fyrir skráningar til og með 16. nóvember. Skráning á ráðstefnu hér
ÍSÍ og Mennta- og barnamálaráðuneytið hvetja öll áhugasöm um árangur og afreksstarf til að mæta.