Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Vel mætt á ráðstefnu Sýnum karakter

02.10.2023

 

Síðastliðinn fimmtudag, 28. september, fór fram ráðstefna á vegum Sýnum karakter sem bar yfirskriftina „Sálfræði og íþróttir“. Vel var mætt á ráðstefnuna enda hefur sálfræði í íþróttum og andlegi þátturinn sífellt stækkað og orðið að stærra viðfangsefni í þjálfun síðari ára.  Ráðstefnan fór fram í Háskólanum í Reykjavík og var samstarfsverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, UMFÍ og HR.

Ráðstefnunni var skipt í þrjá hluta eftir mismunandi áherslum.

Í fyrsta hluta var fjallað um Íþróttasálfræði í afreksstarfi. Þar veittu sálfræðingarnir, Thomas Danielsson, Helgi Héðinsson og Richard Taehtinen, innsýn inn í starf þeirra með íþróttafélögum. Mikið var fjallað um mikilvægi þess að byggja upp traust á milli þeirra fagaðila sem koma inn í íþróttastarfið, til þess að skapa grundvöll til að byggja sálfræðivinnuna á. Einnig var rætt að það skipti máli að fá samþykki leiðtoga innan íþróttaliða til að stuðla að auknum árangri íþróttasálfræðinga með íþróttafélögum eða liðum. Heiðar Davíð Bragason, yfirþjálfari hjá Golfklúbbi Akureyrar, veitti einnig innsýn þjálfarans í þessari samvinnu íþróttasálfræðings og gaf dæmi um mikilvægi þess að sálfræðingurinn þekki einnig íþróttagreinina vel og gæti tekið þátt í leiknum til að efla traustið á milli hans og íþróttamannsins.

Í öðru hluta var fjallað um Sálfræðilega færni í þjálfun barna og unglinga. Óli Stefán Flóventsson, þjálfari hjá Ungmennafélaginu Sindra, veitti mjög áhugaverða innsýn í sína nálgun sem þjálfari hjá litlu liði út á landi og hvernig hægt sé að byggja upp karakter hjá iðkendum með skipulögðum hætti og endurskilgreina hvað sé árangur. Grímur Gunnarsson sálfræðingur fjallaði um þá uppbyggingu á hugrænni þjálfun sem hann hefur verið að byggja upp innan yngri landsliða Knattspyrnusambands Íslands. Lokaerindið í þessum hluta átti svo Edda Dögg Ingibergsdóttir, íþróttasálfræðiráðgjafi hjá Fimleikasambandi Íslands. Hún fjallaði um uppbyggingu fræðslu FSÍ í þjálfun sálfélagslegrar færni og mikilvægi þess að veita foreldrum sömu upplýsingar og iðkendum, til að foreldrar geti einnig stutt við ungmennin og tekið samtalið um andlegu hliðina á íþróttum.

Í þriðja og síðasta hlutanum var fjallað um Erasmus+ verkefnið 5C.
Dr. Hafrún Kristjánsdóttir fór yfir tilurð verkefnsins, mikilvægi þess og framkvæmd. Verkefnið Erasmus + er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ, Háskólans í Reykjavík, Loughborough háskóla í Englandi, Fimleikasambands Íslands og Knattspyrnusambands Íslands um að prufa innleiðingu á þessarri aðferðafræði 5C,  sem Chris Harwood prófessor, hannaði hjá tveimur íþróttafélögum (deildum). Verkefnið hófst árið 2021 og er nú að renna sitt skeið á enda í upphafi árs 2024. 
Prófessor Chris Harwood gaf stutta kynningu á einum af þessum fimm þáttum (Commitment, Communication, Concentration, Control, og Confidence) sem aðferðafræðin byggir á. Fjallaði hann um skuldbindingu (Commitment) og fór yfir aðferðir sem þjálfarar gætu notað á æfingu til að veita iðkendum skilning á hvað sé skuldbinding og hvernig eigi að draga hana fram á æfingum og í keppni.
Grímur Gunnarsson fór yfir helstu rannsóknir og niðurstöður. Eitt af því sem var áhugavert var mikil ánægja iðkenda á verkefninu.
Steinar Leó Gunnarsson, þjálfari hjá 3. og 4. flokki hjá Fylki, veitti innsýn þjálfara í verkefnið, sem búinn er að setja sig inn í aðferðafræðina og hefur lagt sig fram við að innleiða hana á æfingum. Hann tók fram mikilvægi þess fyrir þjálfara að fá aukna þjálfun í þessu og tímann til að æfa sig og prófa áfram. Þetta var góð leið til að skilgreina nánar hvaða hegðun væri verið að sækjast eftir frá iðkendum og hjálpaði þjálfurum að veita skýrari skilaboð til leikmanna. Hún hafði líka jákvæð áhrif á æfingamenningu og að leikmenn fóru að vinna betur saman ásamt því að höndla mótlæti betur. 
Að lokum veitti Daði Rafnsson, fagstjóri afrekssviðs MK og doktorsnemi í HR, innsýn í fjölbreytta notkun 5C, hvort sem það var í umhverfi íþrótta eða innan veggja HR.

Ráðstefnan var tekin upp og er von á því að hún verði birt á vefsíðu Sýnum karakter innan skamms. ÍSÍ og UMFÍ þakka fyrirlesurum og ráðstefnustjóranum, Sólveigu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Fimleikasambands Íslands, kærlega fyrir þeirra framlag til verkefnisins.

Markmið verkefnisins Sýnum karakter, snýr að þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum og er verkefninu ætlað að hvetja þjálfara og íþróttafélög til að leggja enn meiri og markvissari áherslur á að byggja upp góðan karakter hjá iðkendum og gera þá betur í stakk búna til að takast á við lífið auk þess að ná árangri í íþróttum.  Sýnum karakter er á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands.

Myndir með frétt