Hjólum í háskólann hefst 18. september
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Stúdentaráð Háskóla Íslands (HÍ) standa fyrir hjólaátaki háskólanemenda sem haldið verður dagana 18. september - 2. október. Í átakinu er efnt til keppni milli nemendafélaga HÍ.
Nú eru það nemendur HÍ sem ætla að keppa sín á milli og er markmiðið að fá háskólanemendur til að hvíla bílinn og ferðast með vistvænum og heilsusamlegum hætti til og frá HÍ. Í átakinu er lögð áhersla á umhverfisvænan, heilsusamlegan samgöngumáta til og frá HÍ. Átakið er ætlað til að styrkja jákvætt og heilbrigt félagslíf í Háskóla Íslands.
ÍSÍ hvetur alla háskólanema sem geta til að taka þátt í hjólaátakinu og velja heilsusamlegan og umhverfisvænan ferðamáta.
Frekari upplýsingar og skráning er á heimasíðu Hjólum í skólann.