Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Ólympíuhlaup ÍSÍ var sett í Grundaskóla á Akranesi

07.09.2023

 

Ólympíuhlaup ÍSÍ 2023 var sett í Grundaskóla á Akranesi fimmtudaginn 7. september, þar sem blíða en örlítil rigning sköpuðu frábærar hlaupaaðstæður.  Allir nemendur skólans auk kennara, rúmlega 700 talsins, hlupu og virtust hafa virkilega gaman af.  Íþróttakennarar Grundaskóla höfðu útbúið skemmtilegan hlaupahring í kringum æfingasvæðið á Jaðarsbökkum, um kílómetra langan, sem nemendur ýmist hlupu eða gengu.  Hægt var að velja vegalengd við hæfi og höfðu þátttakendur klukkustund til að klára hana en þau allra hörðustu kláruðu 12-15 hringi. 

Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleikanna, mætti á svæðið og fór með nemendum einn hring auk þess sem hann hvatti alla til dáða á sinn skemmtilega hátt.  Vel var tekið á móti starfsfólki ÍSÍ fyrir hlaup og tók Margrét Ákadóttir, aðstoðarskólastjóri Grundaskóla, á móti gjöf frá ÍSÍ sem innihélt bolta og útidót fyrir nemendur.  Að hlaupi loknu var nemendum boðið upp á kókómjólk í boði Mjólkursamsölunnar.

Hlaupið er styrkt af verkefninu Íþróttavika Evrópu og verða þrír þátttökuskólar, sem ljúka hlaupinu fyrir 10. október og skila inn upplýsingum til ÍSÍ, dregnir út úr potti. Hver þessara þriggja skóla fær 100.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu. Þeir skólar sem ljúka hlaupinu eftir 10. október geta eftir sem áður skilað inn upplýsingum og fengið send viðurkenningaskjöl, en gert er ráð fyrir að allir skólar hafi lokið hlaupinu fyrir árslok 2023.

Hildur Karen úr framkvæmdastjórn ÍSÍ var viðstödd hlaupið og lét ekki sitt eftir liggja í að aðstoða og Guðmunda Ólafsdóttir framkvæmdastýra Íþróttabandalags Akraness og Hrönn Ríkharðsdóttir formaður létu einnig sjá sig. 

Fyrr þennan morgun sá Birgir Sverrisson framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands um fræðslu um lyfjaeftirlitið, orkudrykki, svefn og skjánotkun, fyrir nemendur 10. bekkjar skólans. 


ÍSÍ þakkar nemendum fyrir þátttökuna og starfsliði skólans fyrir þeirra framlag, samstarf og jákvæðni. Að lokum hvetur ÍSÍ alla grunnskóla til að taka þátt.

Myndir með frétt