Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Göngum í skólann sett í sautjánda skipti

06.09.2023

 

Göngum í skólann var formlega sett miðvikudaginn 6. september, í Helgafellsskóla að viðstöddum mörgum góðum gestum auk nemenda við miðstig skólans.  

Rósa Ingvarsdóttir, skólastjóri í Helgafellsskóla, bauð nemendur og gesti velkomna og Andri Stefánsson, framkvæmdarstjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, tók svo við og stjórnaði dagskránni. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hvatti börn og foreldra til að nota virkan ferðamáta í og úr skóla og vinnu. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hvatti einnig nemendur til að huga að líkamlegri og andlegri heilsu og minnti á að lýðheilsa væri mikilvæg fyrir alla. Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar, þakkaði ÍSÍ fyrir hvatninguna í gegnum árin með lýðheilsuverkefnum og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, minnti alla á umferðarreglurnar og að lögreglan sé alltaf til staðar.  Að lokum fékk Rósa skólastjóri afhentan fána verkefnisins frá ÍSÍ sem Andri afhenti ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Hafsteini Pálssyni úr framkvæmdastjórn ÍSÍ.  Sirkus Íslands lék svo listir sínar við mikinn fögnuð viðstaddra áður en aðstandendur verkefnisins, ráðherrar, ríkislögreglustjóri, nemendur, starfsfólk og aðrir gestir gengu fyrsta spölinn í Göngum í skólann.  

Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttakan vaxið stöðugt.Vegna birtu og veðurskilyrða fer Göngum í skólann fram á Íslandi í september en er erlendis í október.  Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 4. október en verkefninu lýkur hérlendis á þeim degi.  

Þeir sem að verkefninu standa eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Mennta- og barnamálaðuneytið, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Göngum í skólann.

 

Myndir með frétt