Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Þorkell fulltrúi ÍSÍ á ENGSO YOUTH ráðstefnunni

04.08.2023

 

Í júní sl. var haldin ráðstefna í Bosön í Svíþjóð á vegum ENGSO YOUTH (European Non Governmemtal Sports Organization) sem eru samevrópsk regnhlífarsamtök 33 aðildarlanda. Öll starfa þau náið með ólympíunefndum og íþróttasamböndum aðildarlandanna sem hafa það markmið að styrkja stöðu barna- og uppeldisstarfs íþróttasamtaka sem treysta á sjálfboðliða.

Um 100 þátttakendur sóttu ráðstefnuna og flestir komu frá aðildarlöndum ENGSO.  Einn Íslendingur, Þorkell Jónsson, iðkandi frá körfuknattleiksdeild Hauka, tók þátt en hann var valinn úr hópi umsækjenda og fór á ráðstefnuna sem fulltrúi ÍSÍ.   

Skipulag ráðstefnunnar var í anda íþróttanna þar sem í boði var að byrja alla daga á hreyfingu, útihlaupi, jóga eða öðru. Einnig voru ráðstefnudagar skipulagðir þannig að hægt var að velja úr íþróttagreinum til að prófa til þess að brjóta upp daginn. Mikið var lagt upp úr því að ráðstefnugestir kynntust og tækju þátt í umræðum.  Dagarnir byrjuðu að jafnaði á pallborðsumræðum þar sem ræðumenn sögðu frá sínum samtökum og hreyfinu.  Alla daga var valið um tvær vinnustofur til að taka þátt í, eina fyrir hádegi og aðra eftir.  Vinnustofurnar tóku fyrir mismunandi málefni og var sumum þeirra stýrt af fólkinu sem hafði tekið þátt í pallborðsumræðunum um morguninn. 

Vinnustofurnar sem stóðu mest upp úr og sköpuðu hvað mestar umræður fjölluðu um valdeflingu ungs fólks innan íþróttasambanda og þróun rafíþrótta. 

Í fyrri vinnustofunni var skeggrætt hvernig ætti að gefa ungu fólki sterkari rödd innan íþróttahreyfinga, fá ungt fólk til að taka þátt í öllu sem tengist íþróttinni hvort sem það væri að sitja í stjórn, sjálfboðaliðastarf, þjálfun og hvernig hægt væri efla frumkvæði þeirra svo þau geti stigið fyrstu skrefin sjálf. 

Seinni vinnustofan fjallaði um rafíþróttir og aukna notkun tækni innan íþróttahreyfingarinnar. 

Síðasta af stóru málefnunum var sjálfbærni íþrótta og hvernig félög gætu hjálpað að gera borgir og bæi sjálfbæra og minnka mengun. 

Að sögn Þorkels þá var ráðstefnan afar fróðleg og gaf honum tækifæri til að sjá íþróttirnar frá öðru sjónarhorni.  Hann fékk að sjá hvernig önnur landssamtök vinna úr þeim áskorunum sem þau standa frammi fyrir í skipulagi og framkvæmd íþrótta fyrir ungt fólk.  Að lokum stækkaði hún einnig tengslanet hans af fólki með sama áhugamál og hann, víðs vegar um heiminn.  

Myndirnar, sem fengnar eru frá Þorkeli, eru annars vegar af honum einum og hins vegar af honum auk Lorraine, sem var titluð stjórnandi ráðstefnunnar og Mark McNulty, sem situr í stjórn ENGSO Youth.

 

Myndir með frétt