Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Fjórði keppnisdagur á EYOF í Maribor

26.07.2023

 

Tíminn flýgur áfram hér í Maribor og leikarnir hálfnaðir. Veðrið var gott í dag og keppnin hófst í sundhöllinni hjá Völu Cicero í 200m skriðsundi. Vala synti á tímanum 2:05,88 sem kom henni í 16 manna úrslit og synti sig um leið í 8 manna úrslit á tímanum 2:05,31. Úrslitin fara fram annað kvöld. Frábær frammistaða hjá Völu.

Í fimleikahöllinni fór fram keppni stúlkna í áhaldafimleikum. Þær Lilja Katrín Gunnarsdóttir, Kristjana Ósk Ólafsdóttir og Auður Anna Þorbjarnardóttir stóðu sig með stakri prýði og voru ánægðar með sína frammistöðu. Þar með hafa allir okkar keppendur í fimleikum lokið keppni.

Frestuðum tvíliðaleik stúlkna í tennis frá því í gær, fór fram í dag. Íva Jovisics og Hildur Eva Mills spiluðu við öfluga Slóvena, 6-1, 5-1. Þar með er keppni í tennis lokið hjá okkar keppendum. Skipulögð hefur verið B keppni fyrir þá sem lokið hafa keppni sem stendur yfir næstu þrjá daga og öðlast þá tennisfólkið okkar enn frekari reynslu.

Handknattleikslið drengja toppaði svo árangur dagsins með sigri á slóvenska liðinu. Leikurinn var ótrúlega spennandi allan tímann og endaði 27-31 fyrir Íslandi. Stúkan var troðfull af Slóvenum, en Íslendingarnir létu vel í sér heyra og sendu strákunum góða hvatningu.
Vert er að minna á streymi frá leikunum www.eoctv.org

Myndir með frétt