Eitt ár í Ólympíuleikana í París 2024
Í dag er eitt ár þar til Ólympíuleikarnir verða settir í París í Frakklandi en setningarhátíð leikanna fer fram föstudagskvöldið 26. júlí 2024. Einn af hápunktum hennar er þegar Ólympíueldurinn er tendraður og eldurinn mun loga á meðan á leikunum stendur en þeim lýkur sunnudaginn 11. ágúst 2024.
Ljóst er að framkvæmdaraðilar eru tilbúnir í að halda leikana og er bygging Ólympíuþorpsins þar sem keppendur munu gista á áætlun, en þorpið verður staðsett í Saint-Denis hverfinu í París, sem er norður af miðbænum og annað fjölmennasta úthverfi borgarinnar. Flest þau mannvirki sem munu hýsa keppnina eru nú þegar til staðar og eingöngu er verið að byggja tvö ný mannvirki fyrir leikana. Flestir kannast við Saint-Denis leikvanginn en þar verður keppt í frjálsíþróttum auk þess sem að lokahátíð leikanna fer þar fram. Við Eiffel turninn fer fram keppni í strandblaki auk þess sem að turninn verður stór hluti af setningarhátíð leikanna sem verður á ánni Signu sem rennur í gegnum París og á Trocadero svæðinu, gegnt Eiffel turninum. Fræg mannvirki eins og Roland-Garros (tennis), Grand Palais (skylmingar) og Parc-de Princes (knattspyrna) munu hýsa keppni leikanna og þá verður sýningarhöll borgarinnar (Paris Expo) notuð fyrir nokkrar keppnisgreinar og þar á meðal handknattleik.
Á næstu mánuðum heldur íslenskt íþróttafólk áfram að reyna að vinna sér inn keppnisrétt á leikana, en í mörgum íþróttagreinum ræðst hann af stöðu þeirra á heimslista viðkomandi íþróttagreinar næsta vor. Það er klárt að næstu mánuðir verða skemmtilegir og krefjandi fyrir alla þá sem möguleika eiga á því að tryggja sér þátttöku á leikunum.
Ólympíuleikarnir eru haldnir á fjögurra ára fresti en skiptast í sumar- og vetrarleika. Síðustu leikar voru Vetrarólympiuleikarnir sem haldnir voru í Peking í Kína 2022.
Nánari upplýsingar um leikana má finna á heimasíðu leikanna.