Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

13

Evrópuleikarnir 2023 settir

22.06.2023

 

Evrópuleikarnir voru settir við hátíðlega athöfn á Henryk Reyman Municipal Stadium í Kraká í Póllandi í gær. Setningarhátíðin hófst á því að farið var yfir helstu goðsagnir í pólskri sögu en svo tóku helstu tónlistarstjörnur landsins við keflinu. Meðal flytjenda voru Zakopower, Golec uOrkietra, Tribbs, Daria ze Śląska, Bednarek, Roxy Węgiel, úkraínska bandið Kalush og Lviv National Philharmonic Symphony Orchestra. Einnig var helsta afreksíþróttafólk Póllands hyllt.

Þátttakendur í leikunum gengu inn á völlinn og uppskar úkraínski hópurinn öflugasta lófatakið frá þeim 20.000 áhorfendum sem viðstaddir voru, undir laginu „Söngur friðar” eða Song of Peace sem flutt var í bakgrunni af pólska óperusöngvaranum Andrzej Lampert og áðurnefndri sinfóníuhljómsveit. Áherslan á heimsfrið var til staðar í gegnum alla dagskrá hátíðarinnar og það var dýnamískt, eins og alltaf, að sjá allar þátttökuþjóðirnar sameinast á íþróttavellinum. Ólympísku gildin; eining, friður og jafnrétti voru þar í forgrunni. Evrópuleikarnir eru stærsti íþróttaviðburður sem haldinn hefur verið í Póllandi. Keppendur eru ríflega 7.000 og keppt verður í 29 íþróttagreinum í 13 borgum og bæjum í suðurhluta Póllands.

Marin Anita Hilmarsdóttir, keppandi í bogfimi, var fánaberi Íslands við setninguna og leiddi íslenska hópinn inn á leikvanginn. Eldur leikanna var tendraður í lok hátíðarinnar en hann mun loga uns leikunum verður slitið þann 2. júlí næstkomandi.

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ var viðstaddur setningarhátíðina en hann mun fylgjast með keppni íslenska hópsins fyrstu dagana.

Evrópuleikarnir eru á forræði Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC). Líney Rut Halldórsdóttir, meðstjórnandi í EOC, var einnig viðsödd setningarhátíðina sem fulltrúi EOC. Líney Rut var skipuleggjendum leikanna til aðstoðar síðustu vikuna, af hálfu EOC, enda í mörg horn að snúast við undirbúning viðburðar af þessari stærðargráðu. 

Það verður spennnandi að fylgjast með keppni íslensku þátttakendanna á leikunum. Evrópubikarinn í frjálsíþróttum er hluti af leikunum, þó að mótið sé haldið sérstaklega og ólympíunefndir Evrópuþjóðanna komi þar ekki að undirbúningi. Þar hafa íslenskir þátttakendur staðið sig vel í keppni síðustu dagana.

Beint streymi frá Evrópuleikunum.

Íslenski hópurinn.

Frjálsíþróttahópurinn.

Myndir með frétt