Forsetinn stoltur af íslenska hópnum
Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og kona hans Soffía Ófeigsdóttir hafa fylgt íslenska hópnum eftir á Smáþjóðaleikunum á Möltu. Það er heilmikið starf að fylgjast með keppnisgreinum íslenska hópsins því nokkrar vegalengdir eru á milli keppnissvæða og oft er þungamiðja keppninnar í einstökum greinum á svipuðum tíma dagsins. Lárus og Soffía eru ekki ókunnug aðstæðum á Smáþjóðaleikum því þau hafa farið á flesta leika frá því Lárus tók við forsetaembættinu árið 2013 og vita að dagarnir geta verið langir. Fyrri hluta vikunnar fylgdi Lárus mennta- og barnamálaráðherra á viðburði leikanna og sótti bæði ráðherrafund smáþjóða og aðalfund Samtaka smáþjóða (GSSE), sem haldnir voru í tengslum við leikana.
„Það hefur verið frábært að fylgjast með okkar fólki hér á Möltu þessa vikuna. Dagarnir hafa verið pakkaðir af viðburðum og stemningin í íslenska hópnum er einstaklega góð. Veðrið hefur leikið við okkur og aðstæður eru ágætar til keppni í öllum greinum. Hópurinn hefur unnið til margra verðlauna og eins hafa margir náð að bæta sinn persónulega árangur. Ég er mjög stoltur af íslenska hópnum og þeim árangri sem hann hefur náð hér á leikunum. Nefni sem dæmi að íslenska keppnisfólkið í sundi fer heim með flest verðlaun úr þeirri grein, alls 31 verðlaun, sem er ekki lítið afrek. Leikarnir eru einstaklega góður vettvangur fyrir okkar íþróttafólk, að spreyta sig í alþjóðlegri keppni og skemmtileg upplifun fyrir alla sem koma að málum,“ sagði Lárus í dag, á síðasta keppnisdegi leikanna.
Leikunum verður slitið í kvöld með formlegum hætti.