Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

Samantekt frá fimmta keppnisdegi á Smáþjóðaleikunum

02.06.2023

 

Samantekt frá fimmta og næstsíðasta keppnisdegi Smáþjóðaleikanna.  Veðrið hefur verið einstaklega gott og hiti um 22-25 gráður en um miðjan dag kom léttur skúr úr óvæntri átt.

Borðtennis:

Borðtennisliðið spilaði í einstaklingskeppninni í dag.  Strákarnir hófu leik og spilaði Ingi Darvis Rodriguez við keppanda frá Kýpur og tapaði 0-3.  Næsta leik á eftir vann hann keppanda frá Andorra 3-0 og átti svo síðasta leik við sterkan keppanda frá Möltu sem hann tapaði fyri 0-3.  Magnús Gauti Úlfarsson spilaði fyrsta leik við keppanda frá Möltu og tapaði 0-3.  Hann vann svo 3-2 á móti keppanda frá Andorra en tapaði síðasta leiknum fyrir keppanda frá Kýpur 2-3.  Strákarnir því báðir úr leik þrátt fyrir góða spilamennsku en þeir sýndu á köflum mjög góða spretti. 
Stelpurnar spiluðu svo til á sama tíma.  Sól Kristínardóttir Mixa hóf leikinn á móti keppanda frá Lúxemburg og tapaði 0-3 þrátt fyrir góða takta.  Næsta leik á eftir spilaði hún við einn besta keppandann frá Möltu.  Hún gerði sér lítið fyrir og vann fyrstu lotuna og veitti henni svo harða keppni í næstu lotu en tapaði henni naumlega.  Fór svo að leikurinn endaði 3-1 fyrir Möltu og var því Sól úr leik.  Nevena Tasic byrjaði á sterkum sigri á móti keppanda frá Kýpur 3-1 en tapaði svo á móti keppanda frá Svartfjallalandi en komst samt áfram í 8-manna úrslit.  Þar spilaði hún á móti keppandanum frá Möltu, sem Sól spilaði með í riðli, og tapaði 0-3.  Þar með var hún einnig úr leik.  Flottur dagur á borðtennisvellinum.

Júdó:

Liðakeppni á Smáþjóðaleikunum fór fram í gær, fimmtudag. Keppnisfyrirkomulagið er þannig að keppt er í þrem flokkum karla -66kg(-60kg og -66kg), -81kg(-73kg og -81) og -100kg. Íslenska liðið var skipað Aðalsteini Björnssyni og Kjartani Hreiðarssyni í -81kg og Árna Lund og Agli Blöndal í -100kg. Íslenska liðið hafði engan keppanda í -66kg þar sem Romans Psenicnijs var frá keppni vegna meiðsla.

Íslenska liðið drógst gegn San Marínó í fyrstu umferð en lið San Marínó dró lið sitt úr keppni vegna meiðsla. Næsti leikur var því við Monaco í annarri umferð.  Í -81kg flokknum mætti Kjartan Hreiðarsson Marc Elie Gnamien frá Monaco. Kjartan keppir venjulega í -73kg en Gnamien í -81kg og var því á brattan að sækja fyrir Kjartan og sigraði Gnamien.   Í -100kg mætti Árni Lund Franck Vatan og sigraði Árni sannfærandi. Lokastaðan var því 1-2 fyrir Monaco og fóru þeir áfram í undanúrslitin.  Júdóliðið hefur nú lokið keppni. 

Ísland fékk uppreisnarviðureign gegn Lichtenstein. Þar sem Ísland var ekki með keppanda í -66kg byrjuðu þeir með 0-1. Í -81kg flokknum sigraði Kjartan Hreiðarsson Tristan Frei og var því staðan 1-1. Í -100kg flokknum mætti Egill Blöndal Raphael Schwendinger. Viðureignin var mjög jöfn og eftir venjulegan glímutíma hafði hvorugur aðilinn skorað. Því miður tapaðist viðureignin í framlenginu og tapaði því Ísland 1-2 gegn Lichtenstein.

Siglingar:

Keppendum í siglingaliðinu gekk mjög vel í dag.  Þeir eru hægt og rólega að ná betri tökum á aðstæðum hér á Möltu og náðu sínum besta keppnisdegi.  Farnar voru þrjár keppnir bæði í Optimist senior flokknum sem og Ilca 6.  Einn dagur er eftir af mótinu  og tvær keppnir í hvorum flokki.   Hólmfríður var í í 11. sæti eftir þennan dag, Sigurður Haukur í 15. sæti og Hrafnkell í 18. sæti í flokknum Ilca 6.  Ekki liggur fyrir í hvaða sætum Kjartan og Veronika Sif enduðu eftir þennan keppnisdag. Stöðuna í Ilca 6 má finna hér og stöðuna í Optimist má finna hér.  

Skotfimi:

Pétur T. Gunnarsson tók þátt í haglabyssukeppni og komst áfram í úrslit.  Þau verða á morgun laugardag.  Jórunn Harðardóttir og Íris Eva Einarsdóttir tók svo þátt í loftriffli fyrri part dags.  Jórunn komst í úrslit en því miður munaði einu stigi á því að Íris næði inn.  Jórunn tók þátt í úrslitaleiknum og var því miður önnur til að detta út og endaði því í 7. sæti.  Guðmundur Helgi Christensen og Þórir Kristinsson tóku einnig þátt í loftriffli.  Svo fór að Guðmundur Helgi komst áfram í úrslit en Þórir datt úr leik.  Guðmundur Helgi lék sama leik og Jórunn og var annar til að detta út og endaði því í 7. sæti.  

Sund:

Snæfríður Sól Jórunnnardóttir vann sín fjórðu gullverðlaun á leikunum í 50m flugsundi kvenna og Anton Sveinn sigraði í 400m fjórsundi.  Mjög vel gert þar sem hann vann síðast 400m fjórsund á Smáþjóðaleikunum fyrir 10 árum. 

Steingerður Hauksdóttir tryggði sér silfur í 50m baksundi, Birgitta Ingólfsdóttir í 50m bringusundi og Snorri Dagur Einarsson í 50m bringusundi þegar hann synti á nýju unglingameti, 28;33 en gamla metið var 28,53. Eva Margrét Falsdóttir vann einnig silfur í 400m fjórsundi kvenna.

Daði Björnsson tryggði sér bronsverðlaun í 50m bringusundi og bætti tíma sinn þegar hann synti á 28,39.  Jóhann Elín Guðmundsdóttir nældi einnig sér í bronsverðlaun í 50m flugsundi í dag og Vala Dís Cicero í sömu grein og bætti tíma sinn um 7 sekúndur.  Þá vann Freyja Birkisdóttir einnig brons þegar hún synti 1500m skriðsund. 

Skvass-, tennis- og júdóliðin hafa lokið þátttöku og nýttu því daginn í endurheimt eða æfingar.  Frjálsíþróttaliðið var í fríi í dag en keppir í síðasta sinn á morgun.

Nánari upplýsingar um Smáþjóðaleikana má finna hér.

Myndir með frétt