Þýðing á reglum IOC um trans íþróttafólk
Í nóvember árið 2021 gaf Alþjóðaólympíunefndin (IOC) út reglur um sanngirni, inngildingu og afstöðu gegn mismunun á grundvelli kynvitundar og breytileika á kyneinkennum.
Nú er hægt að nálgast þýðingu á þessum reglum hér á heimasíðu ÍSÍ.
Þess má geta að á 76. Íþróttaþingi ÍSÍ, sem fram fór um síðastliðna helgi, var framkvæmdastjórn ÍSÍ falið að rýna í stöðu trans fólks í íþróttum, áskoranir, tækifæri og hindranir. Jafnframt var framkvæmdastjórn falið að leggja fram tillögu að stefnu og mögulegum aðgerðum eigi síðar en á Formannafundi ÍSÍ árið 2024.
ÍSÍ gaf út bæklinginn Trans börn og íþróttir árið 2020 en í ljósi þess að reglur um trans fólk í íþróttum voru óljósar í löndunum í kringum okkur og hjá alþjóðasamböndum um íþróttir þá var ekki talið rétt að setja reglur um eldri íþróttaiðkendur á þeim tímapunkti.
Í greinargerð sem fylgdi ofannefndri tillögu inn á þing ÍSÍ kom meðal annars eftirfarandi fram:
Á undanförnum misserum hefur ýmislegt breyst varðandi stöðu og réttindi trans fólks á Íslandi. Lög um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 kveða á um að hver einstaklingur hefur rétt til að skilgreina kyn sitt sjálfur og skal kynvitund hans njóta viðurkenningar. Með nýju lögunum hafa einstaklingar einnig heimild til hlutlausrar skráningar kyns og eru þar af leiðandi kynsegin. Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020, sem áður náðu yfir stöðu karla og kvenna, ná nú yfir öll kyn. Þar segir meðal annars í 21. grein: „Í skólum, öðrum menntastofnunum, á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi er hvers konar mismunun á grundvelli kyns óheimil. Skylt er að gæta þessa í námi og kennslu, þjálfun, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur og iðkendur“.
Framkvæmdastjórn ÍSÍ telur mikilvægt að rýna í stöðu trans- og kynsegin fólks í íþróttum á Íslandi með það fyrir augum að varpa ljósi á áskoranir, tækifæri og þær hindranir sem trans fólk stendur frammi fyrir innan hreyfingarinnar. Að því loknu verður hægt að leggja fram drög að stefnu og reglum varðandi trans og kynsegin fólks í íþróttum.