Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

Vinnufundur um íþróttir fyrir alla!

26.04.2023

 

Á mánudaginn síðasta, 24.apríl sl., stóð Valdimar Smári Gunnarsson fyrir vinnufundi um íþróttir fyrir fólk með fötlun en hann er verkefnastjóri verkefnisins Allir með, sem snýr að því að hvetja fleiri fatlaða til að æfa íþróttir.  Fundurinn fór fram í Golfskála GKG og var sóttur af forsvarsfólki Kópavogsbæjar og fulltrúum íþróttafélaga í Kópavogi, ásamt stýrihópi verkefnisins en í honum sitja fulltrúar ÍSÍ, UMFÍ og ÍF.  

Um 3.000 börn, 17 ára og yngri, eru með fatlanir á Íslandi en aðeins 150 þeirra eða 4%, stunda íþróttir hjá íþróttafélagi skv. félagaskráningarkerfi ÍSÍ og UMFÍ.

Kópavogur er fyrsta sveitarfélagið þar sem þessar samræður fara fram en til stendur að ræða við forsvarsfólk fleiri sveitarfélaga og íþróttafélaga.
Á fundinum kynntu fulltrúar þriggja íþróttafélaga frá árangursríku íþróttastarfi fyrir iðkendur með fötlun.  Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir mætti fyrir hönd íþróttafélagsins Aspar en þar þjálfar hún knattspyrnu, Rakel Másdóttir kom frá fimleikafélaginu Gerplu og Bára Hálfdánardóttir, frá Haukum þar sem hún þjálfar Special Olympics hópinn í körfubolta.  
Allar voru þær sammála um að eftirspurn eftir þjálfun sé mikil og fjölga þurfi tækifærum fyrir fatlaða innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.  Það sé þó áskorun að þjálfa iðkendur með fötlun sem nauðsynlegt sé að yfirstíga.  Þær nefndu einnig hvað þátttaka í íþróttum geri mikið fyrir börnin félagslega, þau eignist vini og sjálfstraustið eykst. 

Gunnhildur nefndi að oft væru börn með fötlun tekin út úr bekk og því væri mikilvægt að þau gætu tilheyrt íþróttafélaginu. 
„Það er réttur hvers barns að geta valið sína íþrótt og því þurfa einstaklingar með sérþarfir að fá tækifæri til að velja sér íþróttir“ sagði Gunnhildur. 
Gunnhildur er einmitt einn af nokkrum sendiherrum verkefnisins.  Hún hefur tekið að sér að aðstoða félög við að setja í gang íþróttastarf með fötluðum en hún verður sendiherra knattspyrnu og er stefnt á að fá sendiherra í fleiri greinar.

Valdimar sagðist vera að stíga þarna fyrsta skrefið en að framundan sé mikið starf þar sem hann og forsvarsfólk verkefnisins ræði við fleiri bæjarfélög um samstarf við íþróttafélög og styrktaraðila á hverjum stað.

Myndir með frétt